Fréttaskýring: Ver samningaleið stjórnarinnar

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. Kristinn Ingvarsson

Steingrímur J. Sigfússon ver aðkomu ríkisstjórnarinnar að Icesave-samningunum í ýtarlegu viðtali við fréttavef Morgunblaðsins. Steingrímur telur ekki að stjórnin hefði átt að fá alþjóðlegu sérfræðingana tvo að málinu fyrr né heldur að nýir og hagstæðari samningar kunni að koma Vinstri grænum illa. 

Þá kveðst fjármálaráðherra vera þeirrar skoðunar að krónan hafi sannað gildi sitt en hann telur neikvæða umræðu um evruna og vandann á evrusvæðinu kunna að eiga þátt í minnkandi stuðning við ESB-aðild á Íslandi.

En fjármálaráðherra ræddi Icesave-málið frá ýmsum hliðum í önnum dagsins í Alþingishúsinu um hádegisbilið í dag, fimmtudag.

Í óformlegu sambandi

– Hvers er að vænta af fyrirhuguðum samningafundi með Bretum og Hollendingum?

„Í bili hafa menn verið í óformlegu sambandi og skipst á orðsendingum en ekki setið saman á fundum."

Jákvæður tónn í frétt Financial Times

– Nú hefur frétt Financial Times um málið vakið mikla athygli en þar er því haldið fram að Bretar séu hugsanlega viljugir til eftirgjafar í málinu. Má þá vænta þess að þessir fundir sem þú vísar til muni skilja áþreifanlegri niðurstöðu eða með öðrum orðum nýjum samningum?

„Það er jákvæður tónn í þessari frétt Financial Times. Hann er til marks um samningsvilja af hálfu Breta og að sjálfsögðu er hann til staðar hjá báðum þjóðunum. Við værum ekki að tala saman nema vegna þess að það er vilji til þess að láta á það reyna hvort að menn finni einhverjar sameiginlegar lausnir. Það má heldur ekki oftúlka það og ég get ekki farið að tjá mig eða staðfesta efnisatriðin sem þarna er komið inn á.

Það er verið að reyna að ræða þetta í trúnaði og það er lögð mikil áhersla á það af báðum aðilum, öllum aðilum, en það eru ekki síst Hollendingar sem vilja stíga afar varlega til jarðar. Þar er uppi viðkvæm staða og flókin.

Þetta er dálítið heitt mál í pólitískri umræðu í Hollandi. Þannig að það má segja að pólitíska staðan sé flókin í þessu máli, bæði heima fyrir og að heiman.“

Blandar sér ekki í hollensk stjórnmál

– Ertu þá að horfa til sveitarstjórnarkosninganna í Hollandi núna í vor og þingkosninganna að ári liðnu og að stjórnin með Verkamannaflokkinn innanborðs sé tvístígandi við að það líti út fyrir að hún sé í hikandi í málinu?

„Ég ætla að sjálfsögðu ekki að blanda mér í hollenska stjórnmálaumræðu. Ég er ekkert viss um að sveitarstjórnarkosningarnar hafi bein áhrif.

Það eru frekar þingkosningarnar í Bretlandi sem eru að nálgast og vegna þess hversu stór fjármálaglíman verður væntanlega í þeim kosningum - spurningin um frammistöðu Gordons Brown í þeim efnum verður eitt af kosningamálunum - er augljóst mál að þetta getur verið viðkvæmt. Mál af þessu tagi getur orðið hluti af slíkri kosningabaráttu.“

Bretar vilja ljúka málinu

– Þannig að það yrði betra fyrir Breta að klára málið fyrir kosningarnar í júní?

„Eigum við ekki að segja að þeir ættu að hugsa það þannig að það væri nokkurs virði fyrir þá að hafa afgreitt þetta mál þannig að það gjósi að minnsta kosti ekki upp í kosningabaráttunni, án þess að ég sé að segja að þetta sé á þeirra mælikvarða svo stórt að það geri mikið.

Svo er auðvitað alveg ljóst að stjórnvöld eru alltaf í erfiðari og erfiðari stöðu eftir því sem kosningar nálgast og menn verða uppteknari í öllum löndum og eru síður í því að gera samninga eða ganga frá málum þegar kemur að kosningum.

Í Hollandi er hins vegar óróleiki í stjórnmálunum af ýmsum fleiri ástæðum og þá kannski eru það frekar önnur mál en Icesave-málið og þó er það býsna heitt í umræðum á hollenska þinginu.

Svo má bæta því við að Evrópusambandslöndin eru mjög upptekin af vandamálum Grikklands og reyndar fleiri landa og hafa fundað um það undanfarna daga. Þannig að ráðamenn í þessum löndum, ekki síst fjármálaráðherrarnir, eru önnum kafnir og það logar víða eldar.“

Tjáir sig ekki um vaxtahliðina

– Er jafnvel rætt um að lánið vegna Icesave-skuldbindinganna beri enga vexti?

„Ég get ekki tjáð mig um það í einstökum atriðum. Hitt er augljóst mál að við erum að leita að sem hagstæðasti niðurstöðu og þar er fjármagnskostnaður stór þáttur. Þannig að það er ekki flókið að álykta að þeir hlutir séu þarna með í farteskinu með einhverjum hætti en ég get ekki tjáð mig um hvaða útfærslu menn eru að ræða.“

Liti ekki illa út fyrir Vinstri græna

– Nú hefur þú sem formaður VG og hugsanlega mest áberandi ráðherra ríkisstjórnarinnar talað mjög eindregið fyrir þessum samningum, alveg frá upphafi. Núna stefnir hugsanlega í mun betri samninga. Hvernig mun það líta út fyrir þinn flokk og kannski þig persónulega sem fjármálaráðherra að hafa ef til vill verið að berjast með kjafti og klóm fyrir verri samningum en við hefðum geta fengið með öðrum aðferðum?

„Það mun líta mjög vel út fyrir mig og okkur Íslendinga ef við náum hagstæðari niðurstöðu en áður var í boði. Ég á ekki í minnstu vandræðum með það og mun fagna því eins og hver annar. Ekki síst vegna þess að ég veit hvað er í vændum fyrir Ísland og hvað hér er við að glíma í skuldum og efnahagsmálum almennt, ekki síst í fjármálum ríkisins og viðfangsefnunum þar fram undan.

Þannig að sjálfsögðu mun ég gleðjast eins og hver annar ef við náum þarna einhverjum umbótum, enda hefur aldrei annað vakað fyrir mér og vonandi flestum en að ná sem hagstæðasti niðurstöðu fyrir Ísland miðað við það sem í boði er á hverjum tíma. Hitt má ekki gleymast að það er okkur stórkostlega dýrt og hefur orðið okkur dýrt að draga að leysa þetta mál.

Það verður sjálfsagt aldrei hægt að stilla upp þeim reikningum en allar frekari tafir á jákvæðari framvindu í efnahagslífi Íslands eru óhemju kostnaðarsamar og við erum með hættu uppi núna að þær betri horfur sem farið var að glitta í um áramótin síðustu – og raunhæfir möguleikar á viðsnúningi í hagkerfinu – að þetta leki niður um greipar okkar ef frekari tafir verða á því leysa úr þessu máli og komast áfram með aðra hluti.

Þannig að staðan er grafalvarleg og ég hef af því þungar áhyggjur, ef þetta fer ekki að leysast, að það er ávísun á frekari erfiðleika hér í þjóðarbúskapnum, ekki síst hvað varðar afkomu ríkissjóðs sem þá aftur kallar á enn þá sársaukafyllri aðgerðir á þeim vígstöðvum."

Keyptu dýra erlenda ráðgjöf

– Þú hefur rætt um mannaveiðar hér í þinginu og að þú viljir ekki persónugera þessa miklu deilu. En telurðu ef til vill í ljósi reynslunnar að það hefði átt að fá alþjóðlega sérfræðinga að málinu fyrr?

„Nei. Ég tel að við höfum reynt að gera þetta vel á hverjum tíma. Við framlengdum í grunninn samskonar samninganefnd og fyrri ríkisstjórn hafði í málinu með æðstu embættismönnum og forystumönnum þeirra ráðuneyta og stofnana sem hér koma helst við sögu.

Og við keyptum að dýra ráðgjöf, lögfræðilega og efnahagslega. Það var hvergi til sparað í þeim efnum. Þannig að ég tel að við höfum nestað okkur eftir atvikum eins vel og við gátum í samningaviðræðurnar 2009.

Ég tel að þar hafi verið unnið gott starf. Því málinu var þokað langan veg úr þeim hjólförum og þeim farvegi sem það var í þegar við tókum við því og það er algerlega ljóst að fyrirliggjandi samningur er til muna hagstæðari en hugmyndirnar sem voru langt komnar í lok árs 2008 og byrjun árs 2009 um að leysa þetta mál.

Það hefur orðið jákvæð framþróun í þessu máli frá fyrstu hugmyndum um hvernig það skyldi leyst. Ef eitthvað enn betra býðst gleðjumst við öll yfir því og ég er ekki í neinum einustu vandræðum að taka því fagnandi. Auk þess skipta einstaklingar og persónur engu í þessu sambandi.

Þetta snýst um efnahagslega framtíð Íslands og það eru stórir efnahagslegir hagsmunir í húfi og það væru nú meiri smámennin sem gætu ekki sett sjálfa sig til hliðar í slíku."

Margt sem skýrir breytta stöðu

– Má þá skilja af orðum þínum að það sé vilji af hálfu Hollendinga og Breta að ef til vill bjóða hagstæðari samning á Íslandi vegna pólitískrar þróunar á Íslandi í kjölfar synjunarinnar fremur heldur en vegna frumkvæðis Íslendinga?

„Það er margt sem veldur því að það kunna að vera möguleikar til þess að ná einhverju betra fram. Það er líka vegna þess að þróun hefur orðið í málinu sem er öllum aðilum óhagstæð. Það er að segja að nú er að verða ljóst að það dregst lengur, jafnvel mun lengur en menn reiknuðu með í byrjun, að fá aðgang að eignum gamla Landsbankans. Það tekur lengri tíma að fá málin á hreint þannig að skilanefnd eða skiptastjóri geti hafið útgreiðslur úr búinu.

Það mun valda miklum viðbótarkostnaði fyrir Ísland og reyndar bæði Holland og Bretland. Þannig að það er til dæmis viðfangsefni þar sem við eigum sameiginlega hagsmuni af því að finna lausnir, að reyna að hraða útgreiðslum úr búinu.

Annars vegar verður meiri vaxtauppsöfnun en menn höfðu reiknað með áður. Síðan er það auðvitað þannig að það er skilningur á því beggja vegna að það verður einhvern veginn að leysa þetta mál. Það er sameiginlegt hagsmunamál líka vegna þess að aðrar þjóðir græða ekkert á því að það verði enn þá meiri vandræði á Íslandi. Og allra síst þeir sem telja að við skuldum þeim peninga, því þeir vilja fá þá til baka.“

Þáttur synjunarinnar 

– Svo ég skýri spurninguna að þá er augljóst að það var mikil umræða erlendis um Ísland og hvers vegna það væri óánægja á Íslandi í kjölfar synjunarinnar og það hefur verið túlkun margra að þessi umræða hafi þrýst á stjórnvöld í Hollandi og Bretlandi að endurskoða ef til samninginn...? [Steingrímur tekur við]

„Ég held að það sem hafi ef til vill gagnast okkur í þeim efnum er að það hafa komist á framfæri aðeins meiri upplýsingar um þetta mál. Menn hafa áttað sig betur á og skilið hvað það er stórt og hvað það er erfitt.

Það hefur auðvitað verið gagnlegt fyrir okkur, auk þess sem menn sjá að það hljóta að vera einhverjar ástæður fyrir því hvers vegna þetta er svona geysilega umdeilt hérna, að klára þetta mál af okkar hálfu.“

Kynntu málstaðinn þegar færi gafst

– Telurðu að þín ríkisstjórn hefði hugsanlega átt að koma meira á framfæri hversu þungur baggi þetta væri fyrir Ísland, þetta dvergríki í Norður-Atlantshafi?

„Ég held að maður hafi nú reynt það við öll möguleg tækifæri og alls staðar þar sem aðstæður hafa boðist. Þetta mál hvarf dálítið út úr umræðu eftir fyrstu mánuði haustsins 2008 og það er svo ekki fyrr en þetta fer að dragast svona lengi og verða svona erfitt í meðförum á Alþingi sem að þetta fer að fá á sig athygli aftur.

Það var ekki mikil athygli á þessu í sjálfu sér framan af ári 2009. Þá voru menn einfaldlega að reyna að þoka því í rétta átt eftir því sem vígstaðan þá bauð upp á.

Og ég endurtek að ég tel að þá hafi verið unnið gott verk, þegar menn færðu þetta úr þeim farvegi að við tækjum á okkur eitt risastórt lán og greiddum það til baka á 10 árum með 6,7% vöxtum yfir í að eignir Landsbankans yrðu látnar ganga upp í þetta í byrjun og að við fengjum langt vaxta- og afborgunarleysi sem er tvímælalaust hagstætt fyrir Ísland.

Þannig að í grunninn hefur orðið þróun sem hefur verið í rétta átt í þessu máli og ef við getum náð einhverju betra fram núna að þá væri það gleðilegt."

Engin ríkisábyrgð

– Arne Hyttnes, forstjóri norska innistæðutryggingasjóðsins, heldur því fram að ef Landsbankinn væri norskur banki sem hefði haft útibú í til að mynda Hollandi, að þá bæri norska ríkið enga ríkisábyrgð á starfsemi bankans. Þetta er hans skilningur á EES-samningnum og þeim reglugerðum sem lúta að innistæðunum. Hvað viltu segja um þessa túlkun?

„Í sjálfu sér er ekki deilt um að hvergi standi í tilskipuninni né í lögum þeirra landa sem hafa innleitt hana að það sé um beina ríkisábyrgð að ræða. Það er enginn að halda því fram. En hvort norski tryggingasjóðurinn hefði ekki sjálfur ráðið við að bæta tjón sem yrði einhversstaðar í útibúum norsks banka annars staðar, hvort að norska ríkið hefði þá komist undan því með öllu. Það er önnur saga.

Ég er ekki viss um að sá hinn sami maður geti fullyrt það ef einhverjar hliðstæðar aðstæður hefðu komið upp gagnvart Noregi eins og á við um okkur. Ég vísa nú bara í afstöðu norskra stjórnvalda sjálfra. Ég held að það væri þá best að Sigbjørn Johnsen [fjármálaráðherra Noregs] svaraði þessum norska embættismanni. Við sjáum hvað hann segir um skyldur Íslands í þessum efnum."

Velvilji norska systurflokksins

– Nú er augljóst að systurflokkur ykkar hefur verið taka undir þau sjónarmið að þetta séu ekki hagstæðir samningar fyrir Ísland?

„Þeir eru okkur velviljaðir og vilja gjarnan styðja okkur en þeir eru ekkert að tjá sig um samninginn sem slíkan.“

Krónan sýnir gildi sitt

- Ef ég vík að ESB hafa nýjar kannanir bent til að meðal atvinnulífsins og þjóðarinnar sé meirihluti gegn aðild. Hafa þessi umskipti í afstöðu þjóðarinnar haft einhver áhrif á stefnu ríkisstjórnarinnar í umsóknarferlinu?

„Nei. Í raun og veru ekki. Við sjáum þann veruleika og það er ekki launungamál að andstöðunni er að vaxa fiskur um hrygg og á því eru ýmsar skýringar. Það er athyglisvert að sjá þessar skoðanakannanir úr atvinnulífinu.

Það virðist vera að verða dálítil áherslubreyting þó að vísu sé meirihluti fyrir því að til framtíðar eigum við að stefna að því að taka upp einhverja aðra mynt. Það er orðin meirihluta andstaða gegn aðild sem er athyglisvert.

Ég held að skýringarnar liggi nokkuð í augum uppi. Það er ýmislegt sem á dagana hefur drifið undanfarin misseri, eins og Icesave-málið og deilur við Evrópusambandið sem og erfiðleikar ýmissa Evrópusambandsríkja sem eru skilin ein eftir og fá litla aðstoð þegar á bjátar.

Og svo er það það að evran er ekki beinlínis að reynast þeim öllum gagnleg í erfiðari stöðu, löndum sem myndu njóta góðs af því að gengið gæti gefið eftir eins og við erum að gera auðvitað. Þau eiga ekki kost á slíkri aðlögun ef þau eru með evru eða með gengi sitt bundið við evru.

Í mínum huga er krónan í þeim skilningi að sanna gildi sitt að aðlögunin í íslensku atvinnulífi er á fullri ferð og er hröð, meðal annars að gengið hefur gefið eftir. Það skapar líka vandamál, vissulega, hjá þeim sem skulda í erlendri mynt.

En það á sér stað í því mjög hröð aðlögun og ég er ekki í neinum vafa um að atvinnuleysi væri meira ef við hefðum ekki núna okkar eigin gjaldmiðil sem tekur hluta aðlögunarinnar á sig. Þannig að það eru kostir og gallar í því," segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands. Steingrímur ver kynningu stjórnar sinnar á …
Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands. Steingrímur ver kynningu stjórnar sinnar á málstað Íslands í Icesave-deilunni erlendis. Reuters
Steingrímur segir stjórnina hafa komið Icesave-samningunum í betra horf en …
Steingrímur segir stjórnina hafa komið Icesave-samningunum í betra horf en þeir voru í undir lok árs 2008. Reuters
Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, gæti verið að fara frá embætti …
Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, gæti verið að fara frá embætti fari svo að stjórn hans springi. Reuters
George Papandreou, forsætisráðherra Grikklands. Steingrímur segir elda víða loga um …
George Papandreou, forsætisráðherra Grikklands. Steingrímur segir elda víða loga um Evrópu sem kalli á athygli Evrópusambandsins. Reuters
Bolli með merki Icesave.
Bolli með merki Icesave. Ómar Óskarsson
Steingrímur telur neikvæða umræðu um evruna kunna að eiga þátt …
Steingrímur telur neikvæða umræðu um evruna kunna að eiga þátt í minnkandi stuðningi við Evrópusambandsaðild.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert