Landamæraeftirlit ekki til bóta

síðasta ári nam kostnaður við Schengen 94,5 milljónum króna, eða …
síðasta ári nam kostnaður við Schengen 94,5 milljónum króna, eða til 15. desember sl. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Upptaka landamæraeftirlits hér á landi, í stað þátttöku í Schengen myndi engu breyta um að íslensk yfirvöld stæðu berskjölduð gagnvart margfalt stærri hópi erlendra glæpamanna sem hér gæti hlaupið í skjól frá handtökuskipunum sem skráðar hafa verið í Schengen-upplýsingakerfið. Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra.

Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokks, spurði Rögnu Árnadóttur, dómsmálaráðherra út í Schengen-samstarfið, meðal annars kostnað við þátttökuna. Kostnaður vegna samstarfsins, s.s. greiðslur Íslands til stofnana ESB auk kostnaðar sem sérstaklega er stofnað til hér á landi vegna samstarfsins, ferðakostnað o.fl., nemur tæpum 977 milljónum króna frá árinu 1996. Á síðasta ári nam kostnaður 94,5 milljónum króna, eða til 15. desember sl. Árið 2008 greiddi Ísland 137 milljónir og árið 2007 rúmar sjötíu milljónir króna.

Í byrjun næsta árs kemur í fyrsta sinn til greiðslu á framlagi Íslands í landamærasjóð, en gera verður ráð fyrir að framlög til Íslands úr sjóðnum verði verulega lægri en nemur greiðslum Íslands í sjóðinn. Gera má ráð fyrir að framtíðarrekstrarkostnaður vegna Schengen verði um 150 milljóna krónur á ári, að meðaltali, en ef ákveðið verður að stækka landamærasjóð ESB gæti sú upphæð hækkað.

Að mati dómsmálaráðherra eru helstu gallarnir við Schengen þeir sem aukinni lögreglu- og dómsmálasamvinnu er ætlað að vega upp á móti. Er þar átt við afnám landamæraeftirlits á innri landamærum Shengen- svæðisins, sem getur gert afbrotamönnum hægara um vik við háttsemi sína og við undankomu til annarra ríkja. Úrræði á borð við endurkomubann og farbann geta orðið næsta haldlítil þegar í hlut eiga brotamenn sem staddir eru innan svæðisins, þ.m.t. evrópskir borgarar, sem staðráðnir eru í að koma aftur til landsins.

Það að taka upp landamæraeftirlit myndi vissulega auka möguleika íslenskra yfirvalda til að framfylgja endurkomubönnum gagnvart þeim fámenna hópi EES-borgara sem hefur verið vísað brott með tilheyrandi endurkomubanni og upplýsingar eru skráðar um í landskerfi lögreglu hér á landi. Hins vegar myndi það engu breyta um að íslensk yfirvöld stæðu berskjölduð gagnvart margfalt stærri hópi erlendra glæpamanna sem hér gæti hlaupið í skjól frá handtökuskipunum sem skráðar hafa verið í SIS-kerfið, að mati dómsmálaráðherra.

Fyrirspurnin og svarið

Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra.
Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert