Meira fæst upp í kröfur á LBI

Nú er talið að meira fáist fyrir eignir Landsbanka Íslands …
Nú er talið að meira fáist fyrir eignir Landsbanka Íslands en áður var áætlað. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Gert er ráð fyrir að um 1.172 milljarðar fáist fyrir eignir Landsbanka Íslands hf. (LBI) upp í kröfur á hendur bankanum. Áætlað er að hægt verði að úthluta um 89% upp í forgangskröfur eða um einu prósentustigi meira en áætlað var við síðasta eignamat, samkvæmt tilkynningu frá skilanefnd bankans.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem send var út vegna kröfuhafafundar Landsbanka Íslands hf. sem haldinn var í dag. Í tilkynningunni segir að skilanefnd LBI hafi uppfært til áramóta mat á eignum bankans frá því í september síðastliðnum.

Samkvæmt því uppfærða mati, sem unnið er af sérfræðingum bankans, sé gert ráð fyrir að um 1.172 milljarðar fáist fyrir eignir upp í kröfur á hendur bankanum. Bókfærðar innlánskröfur á hendur bankanum nema um 1.319 milljörðum kr. og eru að langstærstum hluta vegna innlánsreikninga í Bretlandi og Hollandi.

„Miðað við framangreindar forsendur er áætlað að unnt verði að úthluta um 89% upp í forgangskröfur eða um það bil einu prósentustigi meira en áætlað var við síðasta eignamat.

Tekið skal fram að endanleg fjárhæð krafna og rétthæð þeirra ræðst af afstöðu slitastjórnar og eftir atvikum niðurstöðu dómstóla. Athygli er vakin á að peningaeign bankans nam 194 milljörðum króna við s.l. áramót og gert er ráð fyrir að um 126 milljarðar kr. bætist við á þessu ári. Samtals er því gert ráð fyrir að peningaeign bankans nemi um 320-330 milljörðum króna í lok þessa árs,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur einnig fram að heildarkostnaður við rekstur bankans á síðasta ári nam um 12 milljörðum króna. Langstærstu kostnaðarliðirnir eru laun og launaliðir, eða tæplega 3,5 milljarðar króna. Lögfræðikostnaður og annar sérfræðikostnaður er rúmlega 5,1 milljarðar króna. 

Slitastjórn LBI kynnti afstöðu til um 1.400 krafna á kröfuhafafundinum. Áður hafði verið tekin afstaða til 1.175 krafna, þar á meðal meginhluta þeirra krafna sem lýst var vegna innistæðna í Bretlandi og Hollandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert