Erfið færð víða um land

Snjóþekja og snjókoma er á Reykjanesbraut og raunar öllu suðvestur horninu.

Á Suðurlandi eru hálkublettir og éljagangur á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum. Hálkublettir eða snjóþekja er víða.

Á Vesturlandi er þæfingsfærð og éljagangur undir Hafnarfjalli. Snjóþekja og éljagangur í er í uppsveitum Borgarfjarðar en hálkublettir og skafrenningur er í Borgarfirði og á Holtavörðuheiði.

Á Norðanverðu Snæfellsnesi og á Vatnaleið eru hálkublettir og éljagangur. Skafrenningur ásamt hálkublettum er á Fróðárheiði.

Á Vestfjörðum er hálka og skafrenningur á Súðavíkurhlíð og Flateyrarveg. Snjóþekja og snjókoma er á Gemlufallsheiði. Þungfært er á Steingrímsfjarðarheiði og í Ísafjarðardjúpi en ófært er um Þröskulda. Hægt er að fara um Strandir þar sem er snjóþekja og snjókoma. Þæfingsfærð er allt frá Kollafirði að Svínadal en unnið er að hreinsun. Hafinn er mokstur á Klettsháls.

Hálkublettir eru víðast hvar á Norðurlandi vestra. Snjóþekja og snjókoma er þó á Vatnsskarði. Í Skagafirði eru hálkublettir og éljagangur. Norðaustanlands er éljagangur, snjóþekja eða hálka.

Á Austurlandi eru hálkublettir á Möðrudalsöræfum en þungfært á Vopnafjarðarheiði, þar er þó hafinn mokstur. Snjóþekja er mjög víða eins og til að mynda á Fjarðarheiði og á Vatnsskarði eystra. Hálka er þó á Oddskarði og svo hálkublettir frá Fáskrúðsfirði að Höfn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert