Spyr um skuldastöðu sjávarútvegsfyrirtækja

Ólína Þorvarðardóttir
Ólína Þorvarðardóttir mbl.is

Ólína Þorvarðardóttir, formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis, hefur lagt fram fyrirspurn til fjármálaráðherra um skuldameðferð og skuldastöðu sjávarútvegsfyrirtækja í íslenskum bönkum.

Ólína spyr hvaða verklagsreglur eru eða hafa verið viðhafðar við mat á yfirfærslu skulda sjávarútvegsfyrirtækja úr gömlu bönkunum í þá nýju. Einnig spyr hún hvort lán sjávarútvegsfyrirtækja hafi verið afskrifuð eftir bankahrunið. Sé svarið játandi spyr hún í hve miklum mæli slíkt hafi verið gert. Hún spyr hvort lán sjávarútvegsfyrirtækja hafi verið fryst eftir bankahrunið. Ef svo sé, þá vill hún vita um hvaða upphæðir sé að ræða og til hve langs tíma. 

Í fyrirspurn Ólínu er einnig spurt hve mikið af skuldum útgerðarfyrirtækja hafi orðið eftir í þrotabúum gömlu bankanna þriggja, sundurliðað eftir bönkum. Loks vill hún vita hve stór hluti skulda útgerðarfyrirtækja fluttist yfir í nýju bankana þrjá, sundurliðað eftir bönkum. Ólína óskar eftir skriflegum svörum.

Samkvæmt upplýsingum frá Ólínu er fyrirspurn hennar núna efnislega samhljóða fyrirspurn sem fyrir áramót var beint til efnahags- og viðskiptaráðherra. Að hennar sögn fengust þá takmörkuð svör. Þess má geta að svarfrestur ráðuneytisins er tvær vikur.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert