Kalt stríð milli bænda og Samfylkingar

Búnaðarþingi lýkur í dag.
Búnaðarþingi lýkur í dag. mbl.is

Segja má að það sé eins konar kalt stríð í gangi milli Samfylkingarinnar og bænda á búnaðarþingi. Samfylkingin sendi ekki fulltrúa til fundar við Evrópunefnd búnaðarþings og bændur mættu ekki í boð sem Samfylkingin hugðist halda fyrir þingfulltrúa í gærkvöldi.

Á vef Bændablaðsins, www.bbl.is, kemur fram að Samfylkingin sá ekki ástæðu til að senda fulltrúa sína til fundar við Evrópunefnd búnaðarþings sem hefur starfað síðustu tvo daga. Nefndin boðaði á sinn fund fjölda gesta og óskaði meðal annars eftir því við alla stjórnmálaflokkana sem sæti eiga á Alþingi að þeir sendu sína fulltrúa til að fjalla um Evrópusambandsumsóknina. Við því brugðust Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, Vinstri græn og Hreyfingin. Fulltrúar Samfylkingarinnar létu hins vegar ekki sjá sig og að sögn Sigurbjarts Pálssonar formanns nefndarinnar bárust engin skilaboð frá flokknum.

Hefð er fyrir því að stjórnmálaflokkarnir bjóði fulltrúum á búnaðarþingi að hitta sig utan fundartíma. Að þessu sinni hunsuðu þingfulltrúar boð Samfylkingarinnar. Mikil andstaða er á búnaðarþingi við umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, en Samfylkingin leggur hins vegar mikla áherslu á aðildarumsóknina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert