Dæmi um 14 brot sama strandveiðibáts

Dæmi er um að sami strandveiðibáturinn hafi brotið regluna um 800 kílóa hámarksafla í hverri veiðiferð í 14 tilvikum síðasta sumar. Þetta kemur fram í frétt á vef Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ).

Þar segir að þetta megi lesa úr úttekt Háskólaseturs Vestfjarða á framgangi og áhrifum strandveiðanna.  Í úttektinni sé að finna töflu sem sýnir að tugir dæma eru um báta sem brutu þessa reglu fimm sinnum eða oftar á meðan veiðarnar stóðu yfir. 

Friðrik Friðriksson, lögfræðing LÍÚ, sagði á vef sambandsins fyrr í vikunni, að a.m.k. helmingur þeirra 554 báta sem stunduðu veiðarnar á síðasta sumri hafi brotið gegn ákvæðum reglugerðar um hámarksafla. Tölfræðigögn staðfestu það stjórnleysi sem einkennt hafi veiðarnar. Svör frá Fiskistofu undirstriki einnig það raunverulega úrræðaleysi sem eftirlitsaðilar stóðu frammi fyrir þegar kom að því að grípa til refsinga fyrir brot. 

„Í raun gat hvaða bátur sem er veitt eins og honum sýndist vegna skorts á lagalegum úrræðum til að svipta menn veiðileyfi, eins og gildir um önnur fiskiskip. Vinna við umsýslu vegna álagningar og eftirfylgni vegna strandveiðibátanna var álíka mikil og við öll önnur fiskiskip, enda þarf að gæta hvers og eins máls með sama hætti skv. stjórnsýslulögum, hvort sem um er að ræða 50 kg eða 500 kg," sagði Friðrik.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert