Fórnarlamb mansals undir eftirliti erlendis

Dómsuppkvaðning í mansalsmálinu í Héraðsdómi Reykjaness.
Dómsuppkvaðning í mansalsmálinu í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is

Fórnarlambið í mansalsmálinu sem í gær var kveðinn upp dómur í er ennþá undir lögregluvernd, en þó ekki hér á landi, segir saksóknarinn Kolbrún Sævarsdóttir.

Þegar þinghald í málinu hófst í byrjun árs kom fram að stúlkan, sem er 19 ára og frá Litháen, hafði verið undir sólarhrings eftirliti lögreglu, þar sem hún var talin í mikilli hættu jafnvel þótt hinir dæmdu hafi setið í gæsluvarðhaldi.

Gæsluvarðhald yfir Litháunum fimm, sem hver um sig fékk fimm ára dóm í Héraðsdómi Reykjaness í gær, var framlengt þar til áfrýjunarfrestur er liðinn, en hann er fjórar vikur. Lögmaður eins Litháanna sagðist í samtali við mbl.is í gær gera ráð fyrir að dóminum verði áfrýjað til Hæstaréttar.

Eru með samkomulag við litháísk yfirvöld

Árið 2008 gerði Björn Bjarnason, sem þá var dómsmálaráðherra, samkomulag við dómsmálaráðherra Litháens þess efnis að Litháar sem dæmdir eru hér á landi afpláni í heimalandi sínu.

Þó er það ekki svo að staðfesti Hæstiréttur dóminn yfir Litháunum, verði þeir sjálfkrafa sendir til síns heimalands, heldur fer þá líklega af stað ferli á vegum dómsmálráðuneytisins þar sem Litháunum er fyrst boðið að afplána í sínu heimalandi. 

Hingað til hafa langflestir fangar afþakkað slík boð. Fer þá yfirleitt af stað flókið ferli þar sem stjórnvöld heimalands fanganna eru beðin um að taka við þeim. Viðkomandi fangi hefur auk þess frest til að kæra þá ákvörðun sem tekin er, og má því gera ráð fyrir að margir mánuðir líði frá því dómur fellur og þar til fangi er kominn til síns heimalands.

Seldu aðgang að konum sínum

Margrét Steinarsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Alþjóðahúss og lögfræðingur í framkvæmdahópi Stígamóta, segir líklegt að leiðir opnist fyrir stúlkur í svipaðri stöðu staðfesti Hæstiréttur sakfellingu yfir mönnunum.

Hún segist sjálf hafa hitt tugi fórnarlamba mansals í starfi sínu og nefnir m.a. tvö tilvik þar sem eiginmenn kvenna frá fjarlægum löndum seldu að þeim aðgang. Einnig konur sem ekki áttu völ á öðru en að starfa í kynlífsþjónustu, og ætlast hafi verið til ýmislegs af þeim sem þær annars voru ekki tilbúnar að gera.

Dómsuppkvaðning í mansalsmálinu í Héraðsdómi Reykjaness.
Dómsuppkvaðning í mansalsmálinu í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert