Hættum að etja flokkunum saman

Þingmenn ræddu Icesave-málið á Alþingi eins og oft áður.
Þingmenn ræddu Icesave-málið á Alþingi eins og oft áður. mbl.is/Heiðar

Þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu hvöttu til þess á Alþingi í dag, að fylkingar standi saman við að leiða Icesave-málið til lykta. „Það á að hætta að etja flokkunum saman í þessu máli," sagði Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks. „Nú eigum við að standa saman öll sem einn og semja, ekki rífast innbyrðis."

Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að krafa væri gerð á þingmenn  hvar í flokki sem þeir væru, í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar um að hætta að rífast og koma sér upp úr skotgröfunum og vinna saman með kurteisum hætti. 

„Við erum í þeirri sögulegu stöðu að geta farið aftur inn í það mál, sem hefur klofið okkur hvað mest að undanförnu og unnið það þannig að mannsbragur sé á fyrir alla. Ég held að vinnan í átt að betri vinnubrögðum snúi að þinginu og því hvernig við komum fram við hvert annað," sagði Róbert.

Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, hóf umræður um Icesave-málið í upphafi þingfundar í dag og spurði Kristján Þór Júlíusson, þingmann Sjálfstæðisflokks, hvort hann teldi rétt að reyna að ljúka málinu á þeim verpólitíska vettvangi sem lagður hefði verið að undanförnu eða hvort hann vildi taka málið upp frá grunni eins og sumir innan stjórnarandstöðunnar vildu, sem myndi fresta efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og setja málið í uppnám.

Kristján Þór svaraði, að hann hefði engan áhuga á að taka málið upp frá grunni. Kröftum manna væri varið til betri verka en sitja endalaust yfir Icesave-málinu en hins vegar væru þau tilboð, sem komið hefðu frá Bretum og Hollendingum nýlega, algerlega óviðunandi. 

Siv sagði, að Magnús Orri hefði hafið umræðurnar á því að hrauna yfir Kristján Þór Júlíusson í Icesave-málinu og það hefði aldeilis ekki verið sáttatónn í þeirri ræðu. Magnús Orri sagði það misskilning að hann hefði verið að hrauna yfir Kristján Þór. Hann hefði fyrst og fremst verið að leggja áherslu á að þingmenn stæðu saman á næstu vikum. 

Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, gerði að umtalsefni þá kröfu, sem komið hefði fram á Norðurlöndum síðustu daga, um að Íslendingar standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar ef þeir ættu að fá frekari lánafyrirgreiðslu.

Illugi sagði að allir þingmenn væru sammála um að engin lagaskylda væri á Íslendingum að greiða þær skuldbindingar sem stofnað var til af hálfu Landsbankans. Undir þetta hefðu forsvarsmenn norska olíusjóðsins nýlega tekið. Nú þyrfti að kynna málstað Íslands rækilega á Norðurlöndum svo misskilningi um lagaskyldu, sem m.a. hefði komið fram í máli utanríkisráðherra Noregs, yrði eytt.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, sagði mikilvægt að koma málstað Íslendinga á framfæri og reyna að byggja upp traust í samskiptum við önnur ríki, þar á meðal nágrannaþjóðirnar, sem hafi viljað veita eitthvert liðsinni. Það sé þó gagnrýnivert hvernig þær hafi tengt lánafyrirgreiðslu við Icesave-málið og að allir talsmenn íslenskrar þjóðar verði að hafa þetta í huga. 

Siv Friðleifsdóttir sagði að menn yrðu að gæta sín í ummælum um nágrannalöndin.  „Þetta eru vinir okkar sem ætla að lána okkur fé. Auðvitað finnst okkur óþægilegt að þeir skuli tengja það við Icesave-deiluna þegar við erum ekki búin að leysa hana. En menn skulu gæta sín þegar talað er um nágrannaþjóðir. Það er ekki hægt að segja hvað sem er um þá sem ætla að lána og sem eru vinir okkar í reynd."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert