Gamall draumur rætist

Lögreglumenn í Mottumars.
Lögreglumenn í Mottumars.

„Ég held að menn séu að nota þetta sem afsökun til þess að láta sér vaxa mottu sem þá hefur dreymt um í mörg, mörg ár,“ segir  Þórir Ingvarsson, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu eru meðal þeirra sem skráð hafa sig í liðakeppni í Mottumars söfnun Krabbameinsfélagsins.

„Söfnunin er okkur sérstaklega ofarlega í huga í dag vegna þess að í gær lést félagi okkur úr krabbameini aðeins 39 ára gamall, en hann veiktist í fyrrasumar. Því teljum við það skyldu okkar að tefla fram sterku liði í keppninni og reyna fá sem flesta til að styrkja okkur,“ segir Þórir.

Lið lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu hefur þegar safnað rúmlega 30 þúsund kr. Nú þegar eru hátt á fjórða tug lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu skráðir til leiks, en Þórir tekur fram að það bætist í hópinn á hverjum degi. Hann skorar á lögreglulið víðs vegar um landið að vera með. 

Að sögn Þóris er mikill hugur í mönnum og metnaður mikill um að vera með sem myndarlegast skegg. Segir hann keppendur vera á öllum aldri. Spurður hvort því fylgi aukin virðing að vera með yfirvaraskegg segir Þórir of snemmt að segja til um það, en bendir á að víða í Bandaríkjunum sé löng hefð fyrir því að lögreglumenn séu með mottur. „Reyndar held ég að það sé nánast skilyrði fyrir inngöngu í lögreglunni þar ytra,“ segir Þórir kíminn.

Spurður hvort hann telji að einhverjir freistist til þess að halda yfirvaraskegginu þegar mars er liðinn segir Þórir aldrei að vita. „Ég er hins vegar sannfærður um að það verði eiginkonurnar sem fái að ráða mestu þar um. Í einhverjum tilfellum munu þær krefjast þess að þeir raki sig um leið og mánuðurinn er liðinn.“


Lið lögreglumanna


 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert