Myllan lækkar verð vegna gengisbreytinga

Myllan hefur lækkað öll verð vegna lækkunar á gengi evrunnar
Myllan hefur lækkað öll verð vegna lækkunar á gengi evrunnar mbl.is/Golli

Myllan hefur ákveðið að lækka verð á öllum vörum fyrirtækisins um 2-3% á þriðjudag. Ástæðan er lækkun gengis evru gagnvart krónunni. Að sögn Björn Jónssonar, framkvæmdastjóra markaðssviðs Myllunnar, veit hann til þess að fleiri fyrirtæki sem tengjast móðurfélaginu Íslensk ameríska vinna með sama hætti, það er að breyta verði í samræmi við þróun gengis.

Björn segir að verðlækkunin gildi fyrir alla viðskiptavini fyrirtækisins. Hann segir Mylluna vera nánast algjörlega tengda evrunni hvað varðar innkaup á vöru og hráefni. Hann segir að á hverju fimmtudagshádegi sé staðan á genginu tekin og  ákveðið hvort breyta þurfi verðum. 

„Þegar allt fór hér á verri veg í þjóðfélaginu og krónan lækkaði þá urðum við að fylgjast mjög grannt með. Í raun miklu nánar heldur en þegar það var stöðugt," segir Björn. Hann segir að þá hafi Myllan gefið út þessa reglu til viðskiptavina sinna að í hádeginu á fimmtudögum yrði staðan á genginu skoðuð og „epli borin saman við epli". Þetta hafi verið gert með fyrirvara um 5% sveiflu á genginu. Ef evran lækkaði um 5% þá var lækkun en ef evran hækkaði um 5% þá hækkaði Myllan sitt verð.

Nú hafði evran lækkað um 5,4% frá síðasta viðmiði  og þá hafi sú ákvörðun verið tekin að lækka verð. Björn segir að viðskiptavinir Myllunnar séu mjög ánægðir með þessa ákvörðun fyrirtækisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert