Maður veit ekkert hvernig þetta fer

Gestir í sumarbústaðabyggðinni að Hellishólum hafa þurft að yfirgefa svæðið.
Gestir í sumarbústaðabyggðinni að Hellishólum hafa þurft að yfirgefa svæðið.

„Við sjáum ljósbjarma frá Eyjafjallajökli í gegnum skýin en þetta virðist vera austan við Gígjujökul. Það er þó erfitt að segja til um það. Við sjáum greinilega ljós og það skrítna er að okkur finnst þetta vera frekar neðarlega í jöklinum, ekki á toppnum,“ segir Ari Þór Kristinsson á Staðarbakka en hann er ásamt föður sínum, Kristni Jónssyni bónda á Staðarbakka, að aðstoða við að rýma bæi og sumarhús í Fljótshlíðinni. „Við erum að tékka á bæjum og athuga með sumarbústaði,“ segir Ari.

Ari segir enga lykt að finna og ekki greinilegt öskufall.

Ari segir þá feðga komna að Hellishólum, stóru sumarhúsahverfi í Fljótshlíð. Þangað eru nú komnar tvær rútur til að ferja gesti sem þar dvelja í burtu. Hann segir töluvert marga vera á staðnum.

Ari og sveitungar hans fengu send skilaboð frá Neyðarlínunni um að rýma svæðið. „Það hringdu allir símar í húsinu samtímis með skilaboðum um að eldgos væri að hefjast.“

Staðarbakki er á hættusvæði og því áttu Ari og fjölskylda von á því að þurfa að rýma bæinn kæmi til eldgoss.

„Við erum hérum bil á mesta hættusvæðinu eins og er. Ef það kemur flóð kemur það örugglega niður Fljótshlíðina.“

En hvernig líður Ara í þessum aðstæðum?

„Það er pínu spenna í manni og erfitt að lýsa því hvernig manni líður. Þetta er skrítið. Maður veit ekkert hvernig þetta fer, hvernig gosið verður.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert