Stöðugleikasáttmálinn snýst ekki um skötusel

Frumvarp um kvóta á skötusel hefur valdið deilum.
Frumvarp um kvóta á skötusel hefur valdið deilum.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði að það kæmi sér mjög á óvart ef Samtök atvinnulífsins ætluðu að segja sig frá samstarfi við stjórnvöld vegna skötuselsfrumvarpsins svonefnda. „Stöðugleikasáttmálinn snýst ekki um skötusel," sagði Jóhanna.  

Lokaafgreiðsla frumvarpsins er á dagskrá þingsins í dag. Um er að ræða frumvarp um breytingar á stjórn fiskveiða. Þar er meðal annars gert ráð fyrir að aflaheimildir í skötusel verði auknar um 2000 lestir og að útgerðir geti keypt þennan kvóta. Hefur Landssamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) og stjórnarandstaðan á Alþingi haldið því fram að með þessu sé verið að stíga fyrsta skrefið inn á braut svonefndrar fyrningarleiðar.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að lög á verkfall flugvirkja hefðu verið samþykkt á Alþingi í dag meðal annars með tilvísun til þess að nauðsynlegt væri að viðhalda stöðugleikasáttmálanum, sem gerður var milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar á síðasta ári.  

„Skötuselsfrumvarpið mun gera endanlega út um stöðugleikasáttmálann," sagði Guðlaugur Þór og spurði Jóhönnu hvað tæki við þegar sá sáttmáli væri farinn. 

Jóhanna sagði ljóst, að LÍÚ hefði barist hart gegn þessu máli. „Það eru stjórnvöld hér í landinu og þau geta ekki látið ein hagsmunasamtök fleygja stefnumálum ríkisstjórnarinnar út af borðinu," sagði Jóhanna. Hún sagði að gerðar hefðu verið tilraunir til að ná sátt við LÍÚ og Samtök atvinnulífsins, en þau hefðu hafnað öllum sáttatillögum. 

„Við munum fara yfir stöðuna ef það er svo að þau ætla virkilega að segja sig frá sáttmálanum en ég minni á að það eru fleiri aðilar að þessum sáttmála en Samtök atvinnilífsins, þar á meðal öll verkalýðshreyfingin," sagði Jóhanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert