Lægsta tilboð í Mjólká III 57% af áætlun

Mjólkárvirkjun er í Arnarfirði.
Mjólkárvirkjun er í Arnarfirði. Af vef OV

Urð og Grjót ehf. átti lægsta tilboð í framkvæmdir við Mjólká III og hljóðaði það upp á kr. 70.383.000 sem er 57% af kostnaðaráætlun, samkvæmt Bæjarins Besta.

Tilboð voru opnuð í dag en kostnaðaráætlun hljóðaði upp á kr. 122.598.807. Næstlægst bauð Geirnaglinn á Ísafirði tæpar 94 milljónir króna sem er um 77% af kostnaðaráætlun. Þriðja lægsta tilboðið var einnig að vestan, frá Vestfirskum verktökum ehf. á Ísafirði og hljóðaði það upp á tæpar 100 milljónir eða um 81% af kostnaðaráætlun. Hæsta tilboðið kom frá Ístak E.Phil & Sön A/S, sem buðu kr. 161.854.462, 132% af áætlun. Öll tilboðin verða nú yfirfarin.

Á vef Bæjarins besta kemur fram að um var að ræða byggingu nýs stöðvarhúss og inntaks við núverandi stíflu í norðaustur enda Prestagilsvatns í Arnarfirði, sem og dýpkun og mótun inntaksskurðar í Prestagilsvatni og lagning þrýstipípu á milli nýja inntaksins og stöðvarhússins með frárennsli í Borgarhvilftarvatn.

Verklokum er skipt í áfanga og eru þau stærstu frá ágúst og fram í október en verkinu skal að fullu lokið í desember á þessu ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert