Blaðamannafélagið gagnrýnir almannavarnir

Eldgosið á Fimmvörðuhálsi.
Eldgosið á Fimmvörðuhálsi.

Stjórn Blaðamannafélags Íslands lýsir yfir áhyggjum af samskiptaerfiðleikum almannavarna við fréttamenn og ljósmyndara sem fluttu fréttir af eldgosinu á Fimmvörðuhálsi. Langur tími hafi liðið þar til ljósmyndarar fengu að fara nálægt gosinu en á meðan hafi myndir sem björgunarsveitarmenn tóku á vettvangi gengið kaupum og sölum.

„Þegar stórviðburðir verða eða náttúruhamfarir þarf fréttafólk að koma upplýsingum til almennings og til þess þarf góða samvinnu við þá sem starfa að almannavörnum. Það verður líka að hafa í huga að ljósmyndir og myndskeið af vettvangi eru hluti af Íslandssögunni og miklu máli skiptir að reyndir fréttaljósmyndarar fái tækifæri til að sinna þeirri skyldu sinni að mynda slíka viðburði svo að útkoman sé eins og best verður á kosið. Blaðamannafélagið telur brýnt að almannavarnir endurskoði afstöðu sína til starfa fréttamanna og ljósmyndara á vettvangi. Margir þeirra hafa áratuga reynslu í faginu, hafa myndað bæði eldgos og aðrar náttúruhamfarir og það er ekki ástæða til þess að tortryggja aðkomu þeirra á neinn hátt. Gera ætti ráð fyrir því að fréttaljósmyndarar og kvikmyndatökumenn fari með í allar ferðir sem jarðvísindamenn og björgunarsveitir fara í ef mögulegt er að koma því við. Þetta fólk hefur oftar en ekki sótt dýrmæt gögn í hendur fréttamanna eftir hamfarir. Síðast en ekki síst kemur það í veg fyrir að menn reyni að fara upp á eigin spýtur og stofni sér þannig í hættu," segir í ályktun stjórnar BÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert