Sjónarmið Strauss-Kahn koma ekki á óvart

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir ummæli framkvæmdastjóra AGS um ónógan stuðning í framkvæmdastjórn sjóðsins við endurskoðun á áætlun Íslands ekki koma á óvart en Steingrímur átti ekki von á að hann myndi lýsa þessu opinberlega með þessum hætti.

Eftir fund Steingríms og Gylfa Magnússonar efnahags- og viðskiptaráðherra, með Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, í síðustu viku ríkti bjartsýni um að sjóðurinn tæki fyrir endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands. Þau ummæli voru hins vegar höfð eftir Strauss-Kahn í morgun að hugsanlega sé ekki nægjanlegur stuðningur innan stjórnar sjóðsins við endurskoðun á áætluninni um Ísland.

„Þessi sjónarmið hans koma mér ekki á óvart,“ segir Steingrímur. „Hann hefur sagt þetta sama við mig að það þurfi tryggan meirihluta og nægan stuðning í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Okkur hefur verið það alveg ljóst. En ég átti kannski ekki von á að hann myndi segja þetta svona opinberlega.

Þetta breytir í raun og veru ekkert stöðunni frá því sem við upplifðum hana í Washington. Það er velvilji gagnvart því, eins og hann segir, að málin fari áfram en hann hefur þennan fyrirvara á, sem er auðvitað ekki að ástæðulausu. Það er nú við þetta sem við erum að glíma,“ segir fjármálaráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert