Öll félögin hækka eldsneytisverð

Olíufélögin hafa flest hver hækkað eldsneytisverð að nýju.
Olíufélögin hafa flest hver hækkað eldsneytisverð að nýju. Ómar Óskarsson

Öll olíufélögin hafa hækkað eldsneytisverð hjá sér, bæði á bensíni og díselíu, og algengasta verð í sjálfsafgreiðslu á höfuðborgarsvæðinu og víðast á landinu er 204 krónur fyrir bensínlítrann og 203 krónur fyrir dísel, samkvæmt vefnum bensinverd.is.

Þetta er töluverð hækkun frá í gær hjá mörgum stöðvum, þar sem bensínlítinn var kominn niður í 193 krónur og díselolían kringum 190 krónur. Hækkunin á einum degi er því allt að 5,5% í mörgum tilvikum. Á vefsíðum olíufélaganna er ekki að finna neinar skýringar á þessum hækkunum.

Samkvæmt vefnum bensinverd.is virðist sem ódýrasta eldsneytið á landinu þessa stundina sé hjá Orkunni á Egilsstöðum, 201,60 krónur fyrir bensínlítrann en díselolían er ódýrust hjá Orkunni á Sauðárkróki, 196,60 krónur.

Öll félögin birti eldsneytisverð á netinu

Í Morgunblaðinu í dag hvetur Tryggvi Axelsson, forstjóri Neytendastofu, öll olíufélögin til að birta á netinu eldsneytisverð á öllum stöðvum, neytendum til glöggvunar svo auðveldara sé að gera verðsamanburð áður en lagt er af stað. Telur Tryggvi jafnvel koma til greina að endurskoða löggjöfina en samkvæmt núgildandi lögum er olíufélögunum aðeins skylt að birta verð á sölustað.

Hermann Guðmundsson, forstjóri N1, segist í samtali við Morgunblaðið sjá annmarka á þessari hugmynd. Hún geti leitt til þess að verðmunur milli stöðva og félaga minnki og á endanum verði verðið nánast það sama hjá öllum.

Nánari umfjöllun um bensínmarkaðinn í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert