Störfum innan ramma laganna

Adolf Guðmundsson.
Adolf Guðmundsson. mbl.is/Árni Sæberg

„Við störfum innan ramma laganna. Lögin heimila leigu á kvóta og það er heimilt að selja aflahlutdeild,“ segir Adolf Guðmundsson um gagnrýni sem fram hefur komið á brask útvegsmanna með kvótann, meðal annars í máli Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar fyrir viku.

Formaður Samfylkingarinnar sagðist enga samúð hafa með því hvernig útgerðarmenn hefðu braskað með kvótann og stundað glæfraspil með fjármuni úr sjávarútveginum í óskyldum greinum. Þeir standi nú uppi stórskuldugir.

„Ég reikna með að átt sé við það að menn fái mikil verðmæti þegar þeir selja fyrirtæki sín eða hlutabréf og fara út úr atvinnugreininni. Það er ekkert öðruvísi í þessari grein en öðrum að menn selja fyrirtækin sín, af mismunandi ástæðum. Ekki má gleyma því að þeir hafa greitt mikla skatta til ríkisins af söluhagnaði. “

Þá veltir hann því fyrir sér af hverju sjávarútvegsfyrirtæki megi ekki fjárfesta í öðrum atvinnugreinum. „Menn eru að varðveita fjármuni sína og fara í þá fjárfestingarkosti sem þeir telja besta. Einhverjir hafa gengið of langt og tekið of mikla áhættu. Þeir sitja uppi með skuldir og þurfa að bera ábyrgð á afleiðingum þess.“

Adolf segir að skuldir sjávarútvegsins hafi tvöfaldast við gengisfall íslensku krónunnar. Skuldir sjávarútvegsins eru að hans mati ekki hátt hlutfall skulda atvinnulífsins í heild og vísar hann þar til opinberra gagna. „Við erum betur settir að því leyti að við erum að selja afurðir okkar í erlendum gjaldmiðlum og staða krónunnar hefur hjálpað okkur að standa í skilum með skuldbindingar okkar,“ segir Adolf.

Ýtarlegt viðtal við Adolf er í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert