„Gosið enn í sínum ham“

Flestir vilja sjá gosið í ljósaskiptunum.
Flestir vilja sjá gosið í ljósaskiptunum. mbl.is/Árni Sæberg

„Það hefur gengið vel í dag. Það er eins og með hina dagana þá er umferðin að þyngjast seinni partinn. Fólk vill greinilega vera þarna í ljósaskiptunum,“ segir Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarna í samtali við mbl.is, aðspurður um stöðu mála á Fimmvörðuhálsi.

„Gosið er enn í sínum ham og það vellur úr því hraunið, bæði í Hrunagil og Hvannárgil,“ segir hann og tekur fram að engar breytingar hafi orðið á virkni gosstöðvanna.

Hann segir að veðrið hafi verið ágætt í dag en að menn hafi hins vegar áhyggjur af veðurspánni fyrir kvöldið og nóttina. Vonandi bresti ekki á óveður fyrr en allir séu farnir af svæðinu. „Það er spáð slæmu veðri á morgun,“ segir Víðir.

„Hlutirnir hafa gengið mjög vel í dag en straumurinn er farinn að þyngjast á staðinn.“

Ekki liggur fyrir hversu margir hafi heimsótt gosstöðvarnar í dag, en um klukkan 15 í dag voru um 100 ökutæki búin að fara um Sólheimajökul. Reynslan sýni hins vegar fram á að á að þá sé umferðin rétt að byrja, og allt útlit sé fyrir að umferðin verði með svipuðu móti og verið hafi síðustu daga.

Aðspurður segir Víðir að um 95% þeirra sem leggja á jökulinn sé vel búnir. „Það eru hin 5% sem við höfum áhyggjur af. Og það þarf oft fáa til að setja svartan blett á hlutina,“ segir Víðir um leið og hann brýnir fyrir fólki að fara að öllum með gát.

Vefur almannavarna.

Upplýsingar um eldgosið á vef Veðurstofu Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert