Óbreytt ástand á gossvæðinu

Órói á jarðskjálftamælum er af svipuðum styrk og síðustu daga og ennþá koma fram hviður vegna gufusprenginga. Um tugur jarðskjálfta mældist undir Eyjafjallajökli í gær og allir minni en 2 að stærð, segir á vef Veðurstofu Íslands.

Frá því að nýja gossprungan myndaðist hefur að jafnaði verið um tugur jarðskjálfta á dag en áður var fjöldi þeirra á annan og þriðja tug.

Í morgun kom vatnsgusa í Hvanná, næsta víst vegna snjóbráðar þegar hraunstraumur fann nýja fönn, líklega í vestari drögum Hvannárgils.

Veðurspá fyrir Fimmvörðuháls í u.þ.b. 800-1000 metra hæð yfir sjávarmáli:

Austan 3-5 metrar á sekúndu og léttskýjað, en 5-10 og þykknar upp í kvöld. Hvessir í fyrramálið og fer að snjóa, 18-23 metrar á sekúndu og snjókoma með skafrenningi síðdegis. Frost 3 til 8 stig að deginum. Vindkælistig á bilinu -8 til -16 stig.

Fólk hlýði tilmælum lögreglu

Almannavarnir vilja minna almenning á að svæði í eins kílómetra radíus frá gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi sé lokað allri umferð vegna þeirrar hættu sem stafi af gosinu. Lokunin feli í sér að óheimilt sé að fara um Heljarkamb og upp á Bröttufönn. Þá sé svæði sem sé innan fimm kílómetra frá gosstöðvunum skilgreint sem hættusvæði.

Almannavarnir vilja minna fólk á að hlýða tilmælum lögreglu og björgunarsveitarmanna og virða þær lokanir sem í gildi eru.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert