Mugison ánægður með hátíðina

Mugison ásamt hljómsveit.
Mugison ásamt hljómsveit. mbl.is/hag

„Þetta er búið að vera alveg hrikalega gaman og gengið vel. Hátíðargestir voru æðislegir og hljómsveitirnar voru stórkostlegar,“ segir Örn Elías Guðmundsson betur þekktur sem Mugison, um tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður sem haldin var í sjöunda sinn nú um páskana. Segist hann vilja koma þökkum á framfæri til allra sem komu fram á hátíðinni sem og allra gestanna. 

Spurður um aðsóknina segist Mugison handviss um að met hafi verið slegið þetta árið. „Það má segja að það hafi aðeins of margir mætt, því það hreinlega stappað á alla viðburði,“ segir Mugison og bendir á að um tíma hafi fleiri beðið fyrir utan skemmuna, þar sem tónleikarnir voru haldnir, en komust fyrir inni í henni. Tekur hann fram að erfitt sé að hafa nákvæma tölu yfir fjölda gesta þar sem ekki séu neinir miðar á viðburði sökum þess á ókeypis sé á alla viðburði hátíðarinnar. 

Segir hann ánægjulegt hversu smurt hátíðin sé farin að ganga. „Þetta er allt að koma enda ljóst að æfingin skapar meistarann. Sjö hátíðir í viðbót og þá hugsa ég að við þurfum bara að ýta á einhvern einn takka,“ segir Mugison kíminn. 

Mugison segist ánægður með hversu allt hafi gengið fyrir sig. „Það var ekkert vesen,“ segir Mugison og tekur reyndar fram að menn hafi haft smá áhyggjur á föstudaginn þegar allt flug til Ísafjarðar var fellt niður vegna ófærðar sem þýddi að nokkuð stór hópur listamanna komst ekki í flug. 

„Það myndaðist mjög flotta stemningu í vonda veðrinu hjá okkur þegar Hjálmar og Ingó og veðurguðirnir komu keyrandi upp úr miðnætti og löbbuðu beint inn á svið og rústuðu staðnum,“ segir Mugison. 

Spurður út í yfirlýsingar manna á netinu um að Ingó og veðurguðirnir pössuðu ekki inn í konsept hátíðarinanr og hótanir væntanlegra gesta þess efnis að þeir hygðust fara út og í mat þegar Ingó og veðurguðirnir mættu á staðinn segir Mugison skipuleggjendur bara hafa verið ánægðir með að sá hópur hafi skellt sér í mat á meðan og skapaði þannig pláss fyrir fleiri í salnum. 

„Ég held að það hafi flestir gestir verið í salnum þegar þeir stigu á sviðið. Biðröðin náði lengst út á bílastæði og komust færri að en vildu. Það var alveg mögnuð stemning, því heimamenn tóku svo vel á móti þeim. Ingó þurfti yfirleitt bara að segja fyrsta orðið í laginu þá tók fólkið við og sögn restina fyrir hann. Þetta var rosalega flott og eiginlega fallegt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert