Óveður á gossvæðinu

Gosið var mikilfenglegt á páskadagsmorgun.
Gosið var mikilfenglegt á páskadagsmorgun. mynd/Magnús Möller

Kolvitlaust veður er nú á gossvæðinu á Fimmvörðuhálsi og lítið sem ekkert skyggni. Veður fer einnig mjög versnandi í Þórsmörk að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli. Slæm veðurspá er fyrir svæðið.

Tíu til hundrað metra skyggni er nú á Fimmvörðuhálsi að sögn Samhæfingarmiðstöðvar almannavarna og fer veður versnandi. Ekkert ferðaveður er nú þar. Gert er ráð fyrir 23 m/s vindi  um hádegið á Fimmvörðuhálsi. Einnig er vont veður í Þórsmörk.

Vöxtur sem kom í Hvanná í gær hefur nú alveg sjatnað.

Eftirfarandi tilkynning barst frá Almannavörnum kl. 9.15 í morgun:

„Samkvæmt upplýsingum frá björgunarsveitum á Fimmvörðuhálsi og í Þórsmörk er versnandi veður á gosstöðvunum.   Nú er þar hvasst, mjög lítið skyggni og ekkert ferðaveður.

Veðurspáin gerir ráð fyrir vaxandi norðaustan átt, 13-20 metrum á sek sunnan- og austanlands um hádegi  og talsverðri úrkomu síðdegis.  Hvassast verður við suðausturströndina.  Á Fimmvörðuhálsi  í 800-1000 metra hæð er gert ráð fyrir meiri vindi eða um 18-23 metrum á sek og 1-6 stiga frosti. Heldur hægari vindur á morgun þriðjudag.

Björgunarsveitarmenn staddir í Þórsmörk upplýstu einnig að sjatnað hefur alveg í Hvanná og vatnsmagn í ánni er með minnsta móti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert