Staðsetningin kom mjög á óvart

Björgunarsveitarmenn frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.
Björgunarsveitarmenn frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.

„Það kom leitarmönnum mjög á óvart hvað þau voru komin langt inn eftir. Þetta er bara smájeppi á örmjóum dekkjum," segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli.

Margir hafa spurt sig hvers vegna svo erfiðlega hafi gengið að finna jepplinginn, eftir að leit hófst. Ástæðan er sú að fólkið hafði keyrt mun lengra inn á Fjallabak en lögregla og björgunarsveitarmenn létu sér detta í hug. Ekki náðist í fólkið í síma og því var leitin hafin þar sem síðast var talið að heyrst hefði til þeirra, nálægt bænum Fljótsdal innst í Fljótshlíð.

Athygli vekur að til að komast þangað sem bíllinn fannst hefur fólkið þurft að keyra yfir Markarfljótið á brú fyrir ofan Markarfljótsgljúfur og framhjá skála og hesthúsum sem þar eru rétt fyrir innan.

Aðspurður segir Sveinn að ekki hafi verið reynt að staðsetja fólkið út frá farsíma þess þegar maðurinn hringdi eftir aðstoð. Á þeim tímapunkti hafi aðstoðarbeiðnin verið ein af mörgum sem berast í viku hverri og ekki talin sérstök ástæða til að reyna að staðsetja fólkið. Svo hafi maðurinn hringt aftur og sagst hafa losað bílinn og vera kominn á rétta leið.

„Á þessum tíma var þetta eins og hver önnur aðstoðarbeiðni, sem við fáum margar í hverri viku. Sem betur fer fáum við þær afþakkaðar flestar því annars værum við í daglegum útköllum við að leita að ferðamönnum. Það er mjög algengt að við fáum aðstoðarbeiðnir," segir Sveinn.

Enn er óljóst hvernig það atvikaðist að fólkið villtist svona. Konan sem fannst á lífi var útskrifuð af sjúkrahúsi í morgun en er enn í nokkru áfalli eftir atburðina. Lögregla hyggst taka af henni skýrslu í dag, en þegar hún fannst gafst aðeins tími til að spyrja hana nauðsynlegra spurninga til að geta fundið bílinn. Talið er að fólkið hafi farið úr bílnum, fyrst maðurinn sem lést, svo konan sem lést og svo sú sem lifði, til þess að reyna að sækja hjálp.

Sveinn segir fólkið ekki hafa verið algerlega vanbúið, það hafi verið með kuldagalla með sér og fleira slíkt, en þó ekki verið búið fyrir neina langa göngu.

Ekki þykir tímabært að svo komnu að greina frá nöfnum hinna látnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert