Thor Data Center gerir raforkusamning

Gagnaversgámur Thor Data Center utan við stjórnarráðið nýlega.
Gagnaversgámur Thor Data Center utan við stjórnarráðið nýlega. mbl.is/Ómar

Fulltrúar gagnaversins Thor Data Center og HS Orku skrifuðu í dag undir samning um kaup Thor Data Center á raforku frá HS Orku.  Í fyrstu mun HS Orka tryggja gagnaverinu 3,2 megavött af raforku með tryggingu fyrir allt að 19,2 megavöttum kalli stækkun gagnaversins á það.

Fram kemur í tilkynningu, að húsnæði Thor Data Center við Steinhellu í Hafnarfirði geti tekið á móti allt að 6,2 megavöttum af raforku en fyrirtækið leggi áherslu á að byggja gagnaver sitt í einingum sem hægt sé að bæta við og þar með auka við starfsemi fyrirtækisins. Þannig sé hægt að byggja upp gagnaversstarfsemi án óheyrilegra fjárfestinga og með lágmarksáhættu.

Íslensk veðrátta er nýtt til að kæla verið, sem er ný tækni sem þróuð hefur verið af samstarfsaðilum Thor DC. Þannig þarf talsvert minni orku en annars til að kæla og keyra gagnaverið.

Fyrirtækið segir, að tekjumöguleikar Íslands af gagnaverum séu miklir en einn gagnaversgámur geti skilað 1,5 milljarði króna í gjaldeyristekjur árlega. Tekjur af allri stóriðju í landinu séu taldar nema 80 milljörðum og því gætu 55 gagnaversgámar skilað meiri gjaldeyristekjum en stóriðja eða 82 milljörðum króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert