Fréttaskýring: Veldur þú slysi í umferðinni um helgina?

Á síðustu árum hafa brot vegna aksturs undir áhrifum ölvunar og fíkniefna verið sjö til átta á degi hverjum. Ölvunarakstursbrotum hefur fækkað nokkuð milli ára og þeim örlítið sem aka undir áhrifum vímuefna, en betur má ef duga skal. Á síðasta ári olli nefnilega ölvaður ökumaður 51 slysi þar sem urðu meiðsli á sjötíu manns – þar af voru þrjú banaslys á landsvísu.

Ef litið er yfir tilkynningar frá lögreglu höfuðborgarsvæðisins sem birtar eru eftir hverja helgi, og taka til fjölda þeirra sem teknir eru fyrir ölvunarakstur og akstur undir áhrifum vímuefna, kemur margt athyglisvert í ljós. Sú helgi líður varla sem enginn er stöðvaður og hlutfall þeirra ökumanna hátt sem augljóslega eiga sambærileg brot að baki.

Síbrotamenn í umferðinni?

Sem dæmi má taka, að um páskana voru níu ökumenn teknir á höfuðborgarsvæðinu fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna. Af þeim höfðu sex þegar verið sviptir ökuleyfi. Sama átti við um fimm ökumenn af átján sem teknir voru fyrir ölvunarakstur þá helgi.

Helgina 20.-21. mars voru fimm ökumenn teknir við akstur undir áhrifum fíkniefna og voru tveir þeirra þegar sviptir ökuréttindum. Þá voru þrír ökumenn teknir fyrir ölvunarakstur í Reykjavík 10. mars sl. og lentu tveir þeirra, sem báðir höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi, í umferðaróhappi. Svona má lengi telja og var sama mynstur að sjá á tilkynningum lögreglu á fyrstu tveimur mánuðum ársins.

Jafnframt má benda á tvo nýlega Hæstaréttardóma. Í öðru tilvikinu var um að ræða 24 ára karlmann sem aldrei hafði öðlast ökuréttindi. Þrátt fyrir það hefur hann á bakinu sex refsidóma fyrir ölvunarakstur, tvo fyrir að aka án þess að hafa öðlast ökuréttindi og fjóra fyrir akstur sviptur ökurétti. Í hinum var viðkomandi hálffimmtugur. Sá hafði 23 sinnum verið dæmdur fyrir ölvun við akstur og 22 sinnum fyrir akstur sviptur ökurétti eða án ökuréttar.

Horfir til betri vegar

En þrátt fyrir að dreginn sé upp dökk mynd af ástandinu hér að ofan verður engu að síður að taka fram, að svo virðist sem það horfi til betri vegar. Milli áranna 2008 og 2009 fækkaði umferðarslysum þar sem ölvaður ökumaður kom við sögu um 29% á höfuðborgarsvæðinu og ölvunarakstursbrotum um 21% á sama tíma.

Á landsvísu hefur ölvunarakstursbrotum einnig fækkað og það töluvert. Árið 2007 voru brotin tæp 2.100 og rúmlega 1.900 árið 2008. Á síðasta ári voru þau hins vegar um 1.450 talsins.

Í frumvarpi til nýrra umferðarlaga er lagt til að leyfilegt áfengismagn í blóði ökumanns verði lækkað úr 0,5&perthou; í 0,2&perthou;, en jafnframt að hækka eigi hámarkssekt vegna umferðarlagabrota úr 300.000 kr. í allt að 500.000 kr. Hvort slíkar breytingar verði til þess að bæta enn umferðarmenningu og gera út um þann vágest sem áfengi og vímuefni er í umferðinni skal þó ósagt látið.

Teknir ölvaðir og ollu tjóni 2009

1.446

Teknir ölvaðir undir stýri á síðasta ári á landinu öllu.

261

Tjón ölvaðra ökumanna á landinu öllu í fyrra.

890

Teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu.

146

Tjón ölvaðra ökumanna á höfuðborgarsvæðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert