Fjárlaganefnd fundi um AGS

Frá fundi fjárlaganefndar Alþingis.
Frá fundi fjárlaganefndar Alþingis. Ómar Óskarsson

Kristján Þór Júlíusson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í fjárlaganefnd Alþingis, vill að haldinn verði fundur í nefndinni þegar þing kemur saman eftir helgi, um efnahagsáætlun Íslands með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Kristján óskaði eftir fundinum fyrir páska en ekki varð af því þá. „Það hefði nú verið mjög gott að fá fundinn, til upplýsingar. Ekki síst í ljósi þess hvernig Steingrímur J. Sigfússon er að svara fyrir þetta samstarf við AGS núna," segir Kristján Þór.

Steingrímur hefur ekki viljað opinbera hina nýju samstarfsyfirlýsingu íslensku ríkisstjórnarinnar við AGS, vegna efnahagsáætlunarinnar og vísar í hana sem trúnaðarmál, a.m.k. fram að stjórnarfundinum í sjóðnum 16. apríl næstkomandi.

„Ég vildi bara vita hvernig staða þessara mála væri. Nú er þessu enn haldið í þessum smábarnaleik að þetta sé allt bundið trúnaði gagnvart Íslendingum. En svo sjá menn það að sendiherrar annarra ríkja eru að vitna til einhverrar yfirlýsingar sem Íslendingar mega ekki sjá, samkvæmt fjármálaráðherranum. Það er náttúrulega ekki í lagi," segir Kristján Þór.

Hann vill að á fundinum verði upplýst um hvernig staðan sé og á hvaða forsendum efnahagsáætlunin sé lögð upp. „En því miður þá veit maður ekki meira," segir hann.

Hann segist treysta því að fundurinn verði haldinn þegar þing kemur aftur saman. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, hafi svarað sér og gefið það til kynna að fundur verði haldinn um þetta í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert