Nei við fátækrahjálp

Steingrímur J. Sigfússon segir efnahag Íslands á uppleið.
Steingrímur J. Sigfússon segir efnahag Íslands á uppleið. Ernir Eyjólfsson

Ísland segir nei við fátækrahjálp. Svona hljómar fyrirsögn á grein Berlingske Tidende í dag um þær fréttir að málefni Íslands verði að öllum líkindum tekin fyrir hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, AGS, um miðjan apríl.

„Mánuðum saman hefur ekki náðst samstaða um neyðaraðstoðin sem á að veita hinu heilsuveila íslenska hagkerfi. Á föstudag náði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og íslenska stjórnin hins vegar samkomulagi um lán upp á fimm milljarða dollara. Í dag segir íslenski fjármálaráðherrann svo sama og þegið,“  segir á fréttavef Berlingske Tidende, en fréttina vinna þeir upp úr grein norska vefritsins E24. Þarna er þó einhver óánákvæmni hjá norrænu fréttamiðlunum, þar sem heildarfjárhæð allra lánsloforða til Íslendinga, þ.e. frá AGS, Norðurlöndunum og Pólverjum, er nálægt fimm milljörðum dollara, eða ríflega 600 milljörðum króna.

„Ísland hefur enga sérstaka þörf fyrir lán frá AGS akkúrat nú. Miðað við stöðuna í dag þá björgum við okkur út 2010,“  segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra við E24.

„Lánið mun draga úr óvissunni og það er jákvætt til lengri tíma litið að lánveitingar AGS séu nú aftur hafnar. Við erum hins vegar ekki háð því að þurfa að nýta lánin þar til síðar.“ 

Ástæða þessa, að því er E24 hefur eftir Steingrími, er að efnahagur Íslands er á uppleið.  Viðskiptajöfnuður er jákvæður, gjaldeyrishöftum hefur verið komið á og íslenska krónan hefur styrkst lítið eitt.

Ísland finnur engu að síður nú fyrir mati Moody's, segir vefritið, og bendir á að alþjóðlega greiningarfyrirtækið hafi nýlega lækkað lánshæfishorfur Íslands úr stöðugum í neikvæðar. Ástæða þess sé m.a. ótti við að landið nái ekki að endurfjármagna sig.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert