Ófullkomnir farþegalistar einkaþotna

11 einkaþotur á Reykjavíkurflugvelli í einu
11 einkaþotur á Reykjavíkurflugvelli í einu Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Sáralítið eftirlit var með farþegum einkaþotna á umliðnum árum. Við skoðun rannsóknarnefndar Alþingis á farþegalistum kom í ljós að flugrekstraraðilum ber ekki skylda til að halda utan gögnin. Þær upplýsingar sem rannsóknarnefndin fékk um þessi efni voru langt frá því að gefa heildstæða mynd af umfangi flugs eða farþega.

Skoðaðir voru farþegalistar einkaþotna hjá Flugþjónustunni, hjá Flugafgreiðslunni hjá Flugafgreiðslunni (IceFBO) á Reykjavíkurflugvelli og frá Suðurflugi á Keflavíkurflugvelli. Þetta kemur fram í Viðauka 1. í 8. bindi skýrslunnar.

Við eftirgrennslan formanns rannsóknarnefndarinnar hjá tollstjóranum í Reykjavík, lögreglustjóranum í Reykjavík, flugumferðarstjóra og starfsmanns í flugturni kom fram að opinberar skýrslur eru ekki haldnar um flug einkaflugvéla á Reykjavíkurflugvelli og farþegalista þeirra. Ekki var því hægt að fá farþegalista hjá Flugþjónustunni og Flugafgreiðslunni nema í gegnum flugrekstraraðila eða flugþjónustu. Þeir farþegalistar eru ófullkomnir enda ber flugrekstraraðilum ekki skylda til að halda utan um þessi gögn.

Í samtölum formanns rannsóknarnefndarinnar kom einnig fram að ekki væri reglubundin upplýsingaöflun um þessa flugstarfsemi sem fylgt væri kerfisbundið eftir. Embættin gætu í raun ekki sinnt þessu verkefni sem skyldi. Ekki verður annað ráðið en sáralítið eftirlit sé með þessum ferðamáta til og frá landinu.

„Golfferð fyrirtækjaþróunar“ til Skotlands

Stundum vantaði bæði upplýsingar um dagsetningu flugs og flugvél. Og athygli vakti að talsvert var um merkinguna Óþekktur farþegi (e. Unknown Passenger).

Einungis nafn eins stjórnmálamanns fannst á listunum. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ferðaðist dagana 20.–22. september 2007 í einkaþotu með Glitnismönnum til Skotlands. Flogið var frá Reykjavíkurflugvelli og lent á Prestwickflugvelli við Glasgow. Í viðburðadagatali Glitnis kemur fram að dagana 20.–22. september hafi verið „golfferð fyrirtækjaþróunar“.

Í ferðinni voru þrír yfirmenn hjá Glitni: Einar Örn Ólafsson, Guðmundur Hjaltason og Helgi Eiríksson. Tveir fyrrverandi forstjórar Olíufélagsins, Hermann Guðmundsson, forstjóri N1, og Hjörleifur Jakobsson, forstjóri Kjalar, sem er í eigu Ólafs Ólafssonar og á hlut í N1, voru með í för.

Bjarni Benediktsson var á þessum tíma stjórnarformaður N1. Þá voru með í för þeir Gunnar Þorláksson og Gylfi Héðinsson, eigendur BYGG. Á lista yfir flugyfirlit frá Glitni er verðið á þessari ferð, sem var með AviJet, sagt vera „0kr – skað[a]bætur v/Aþenu“.

Á sama lista er flug með AviJet til Aþenu á fótboltaleik 22.–24. maí 2007, en ekkert verð er fært þar til bókar.


Einkaþotur á Reykjavíkurflugvelli.
Einkaþotur á Reykjavíkurflugvelli. mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert