Íslandsáfangi tekinn upp í MA

Fjölþættar breytingar verða gerðar á skólastarfi MA.
Fjölþættar breytingar verða gerðar á skólastarfi MA. Kristján Kristjánsson

Menntaskólinn á Akureyri boðar fjölþættar breytingar á skólastarfinu með nýrri námskrá sem taka mun gildi í haust. Stærstu breytingarnar í nýrri námskrá skólans lúta að námi á fyrsta ári sem verður brotið verulega upp með svokölluðum Íslandsáfanga, en um helmingur náms á fyrsta ári verður helgaður honum. Meðal annarra nýjunga í skólastarfinu er að nemendur þurfa að ljúka viðamiklu lokaverkefni á síðustu önn námsins.

Ein af helstu röksemdunum fyrir breytingum á starfi Menntaskólans á Akureyri segir Jón Már Héðinsson, skólameistari, þá að verið sé að auka virkni nemenda og ábyrgð þeirra á námi sínu í breyttu þjóðfélagi. Við „erum að brúa betur bilið yfir til grunnskólans og háskólans,“  er haft eftir Jóni Má í fréttatilkynningu sem MA sendi frá sér.

Menntaskólinn á Akureyri verður áfram bóknámsskóli með bekkjarkerfi og nám til stúdentsprófs verður eftir sem áður fjögur ár. Nú er skólanum brautaskipt í málabraut, félagsfræðibraut og náttúrufræðibraut en eftir breytingar verða tvö svið, þ.e. tungumála- og félagsgreinasvið annars vegar og raungreinasvið hins vegar. Nemendur velja sér svið strax í upphafi náms við skólann.

Undirbúningur breytinganna hefur staðið í nokkur ár, en fékk byr undir báða vængi með nýjum framhaldsskólalögum sem öðluðust gildi sumarið 2008. Að vinnu við nýja námskrá MA komu allir kennarar og nemendur skólans, auk þess var gerð könnun meðal eldri nemenda .

Íslandsáfanginn er ný hugsun í framhaldsskólastarfi og spannar hann um helming náms fyrsta árs nema. Áfanganum er ætlað að skerpa sýn og auka skilning nemenda á landi sínu, þjóð og tungu. Hann er tvískiptur; annarsvegar fléttast saman nám í íslensku, félagsfræði og sögu en hinsvegar í íslensku, líffræði, jarðfræði og landafræði. Upplýsingatækni er samofin allri verkefnavinnu og sérstaklega er hugað að læsi og beitingu móðurmálsins, bæði í ræðu og riti. Virk þátttaka nemenda liggur til grundvallar áhersla lögð á að glæða áhuga þeirra á umhverfi sínu og náminu almennt.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert