Sjálfstæðisflokkur víkur ekki frá ábyrgð

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson. Brynjar Gauti

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðislokks, sagði á Alþingi í dag að læra beri af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Sjálfstæðisflokkur beri ábyrgð á ýmsum hlutum, mistökum sem gerð voru og mun ekki víkjast frá þeim. Hann sagði ljóst að heppilegra hefði verið að tryggja dreifðari eignaraðild á Landsbankanum og Búnaðarbankanum.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, kom upp í ræðustól í andsvör. Hann sagði ræðu Einars K. prýðilega varnarræðu fyrir Sjálfstæðisflokks og að honum heyrist ekki betur en svo að þingmenn flokksins séu aðallega við umræðuna til að verja einkavæðinguna.

Sjálfur minnti Össur á, að hann hefði í "„prinsippinu“ stutt einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans. Hann hafi hins vegar ekki greitt atkvæði með henni þar sem Sjálfstæðisflokkur breytti um stefnu á síðustu stundu, fór frá dreifðri eignaraðild sem samstaða var um og fékk bankana í hendur tveimur blokkum. Það telur utanríkisráðherra hafi verið stóru mistökin og rót bankahrunsins.

Í kjölfar andsvars Össurar rifjaði Einar K. upp hvað hann sagði í ræðu sinni, þ.e. nauðsynlegt hefði verið að tryggja dreifðari eignaraðild, og það hafi verið mistök að gera það ekki. Hann segir það vekja athygli í skýrslu rannsóknarnefndar, að um leið og nýir eigendur koma að íslenskum banka hækka útlán til sömu eigenda upp úr öllu valdi.

Einar K. sagði Sjálfstæðisflokk bera ábyrgð á þeim ákvörðunum sem teknar voru á meðan hann var í ríkisstjórn, s.s. um aukin íbúðarlán Íbúðarlánasjóðs. Hann hvatt ennfremur þingmenn til að hverfa frá skotgrafahernaði og læra af skýrslunni.

Össur tók undir það með Einari að læra beri af skýrslunni. Hann sjálfur hafi tekið þátt í mistökum sem gerð voru og beri ábyrgð á þeim.

Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert