Illugi færði fram sterk rök

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Ómar

„Ég virði ákvörðun Illuga enda færði hann traust rök fyrir henni,“ segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins. Sem kunnugt er hefur Illugi Gunnarsson alþingismaður ákveðið að stíga til hliðar og víkja af Alþingi um stundarsakir.

Þetta gerir Illugi í kjölfar þess að rannsóknarnefnd Alþingis hefur vísað málum peningamarkaðssjóða til athugunar hjá sérstökum saksóknara. Þingmaðurinn segist meta mál svo, að óvissa sem myndaðist við þá ákvörðun nefndarinnar að vísa i málum peningamarkaðssjóðanna allra til sérstaks saksóknara, sé til þess fallin að draga úr tiltrú almennings á störfum sínum á Alþingi. Jafnframt kunni þetta að skaða Sjálfstæðisflokkinn í þeirri miklu vinnu sem framundan er við endurreisn íslensks efnahagslífs og samfélags og því stígi hann til hliðar. Kveðst Illugi treysta því að sérstakur saksóknari ljúki sem fyrst skoðun sinni og óvissun linni. Hann segist ekki í vafa um að niðurstaða skoðunarinnar verði jákvæð og gangi það eftir muni hann að nýju taka sæti á Alþingi.

„Nei, það var ekki þrýst á Illuga um að stíga til hliðar. Þetta er ákvörðun sem hann tók sjálfur,“ segir Bjarni. Þingflokkur sjálfstæðismanna fundaði í dag og segir Bjarni að fundarefnið hafi verið stjórnmálaviðhorfið almennt, meðal annars í kjölfar efnahagshrunsins. Í fyrramálið mun svo flokksráð Sjálfstæðisflokksins koma saman til fundar í Keflavík og hefst sá fundur á ræðum formanns og varaformanns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert