„Eins og í hryllingsmynd“

Svona var staðan undir Eyjafjöllum í gærkvöldi þegar öskuskýið var …
Svona var staðan undir Eyjafjöllum í gærkvöldi þegar öskuskýið var að leggjast yfir. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Hér er allt dautt. Þetta er eins og í hryllingsmynd. Það er allt grátt yfir að líta. Grasið var farið að grænka og komið brum á öll tré, en nú er kominn annar litur á landið,“ segir Margrét Einarsdóttir í Skógum undir Eyjafjöllum, en þar er búið að vera mikið öskufall í dag.

Margrét sagði að mökkurinn hefði verið dekkstur í gærkvöldi. Núna sæist á milli húsa, en reglulega kæmu öskuský yfir byggðina.

Margrét segir að ef farið sé út í dyr finni fólk særindi í háls og sviða í augum. „Þetta er alveg rosalegt. Þórður Tómasson safnvörður og nágranni minn sagði við mig að þetta væri annar versti morgun sem hann hefði vaknað á sinni löngu ævi. Hinn var árið 1947 þegar Hekla gaus.“

Margrét segist heyra miklar drunur með reglulegu millibili. Hún segist ekki vita hvort það sé frá gosinu sjálfu eða eldingum, en þær hafa verið margar.

Margrét segir að fuglar sjáist í kringum Skóga þrátt fyrir öskufallið. Þeir hafi líklega ekki vit á því að forða sér.

Spáð er norðanátt næstu daga og því má búast við að fólk undir Eyjafjöllum þurfi að þola þetta ástand í talsverðan tíma enn ef gosið heldur áfram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert