Ísland alræmt og þjóðin í sjálfsleit

Ólafur Eggertsson á Þorvaldseyri tók þessa mynd af gosmekkinum frá …
Ólafur Eggertsson á Þorvaldseyri tók þessa mynd af gosmekkinum frá Eyjafjallajökli. HO

Ísland hefur ekki valdið jafnmiklum usla í Evrópu síðan víkingarnir voru og hétu, segir AFP fréttastofan í dag. Fyrst var það efnahagsleg sprenging, því næst sprengigos sem náði athygli umheimsins. Þetta segir AFP óvenjulegt fyrir þessa litlu 317.000 manna þjóð sem vakti áður litla sem enga athygli, að Björk undanskilinni.

Í dag sé Ísland hinsvegar heimsfrægt - alræmt jafnvel. Þrátt fyrir að Eyjafjallajökull hafi valdið litlu tjóni í heimalandi sínu, þar sem aðeins 700 bændur verði fyrir raunverulegum áhrifum, þá séu áhrifin ótrúleg í Evrópu og um allan heim þar sem flugfarþegar hafi setið fastir.

Blaðamaður AFP rifjar upp að þetta sé í annað sinn á stuttum tíma sem Íslendingar hrista ærlega upp í umheiminum og vísar í Icesave deiluna. Hinsvegar reyni þjóðin að takast á við þessar efnahagslegu og náttúrulegu hamfarir með húmorinn á lofti, og vísar m.a. í brandarana um að Bretar hafi viljað reiðufé en ekki ösku (cash, not ash) og að síðasta ósk hins deyjandi íslenska hagkerfis hafi verið að ösku þess yrði dreift yfir Evrópu.

„Með svona bröndurum takast Íslendingar á við þessi áföll og við þá nýju stöðu að vera allt í einu séðir sem vondu kallarnir í útlöndum," segir blaðamaður AFP. „Einn brandarinn fangar fullkomlega fáránleika þeirrar hugmyndar að Ísland, sem heldur ekki einu sinni úti her, sé að níðast á umheiminum: „Ætlar þú að abbast upp á Ísland? Þá lokum við öllum flugvöllunum ykkar"."

Svona brandarar segir blaðamaður AFP hinsvegar að séu aðeins gríma sem feli þá miklu sjálfsleit sem Íslendingar takist nú á við til að skilja hvernig þeim tókst að koma sér í vona mikil vandræði og hverjir séu ábyrgir.

En þrátt fyrir að þeir séu miður sín yfir bankaskandalnum segir AFP að Íslendingar finni ekki til neinnar sektar yfir vandræðunum sem Eyjafjallajökull veldur, þvert á móti virki eldgosið nánast sem plástur á þau félagslegu sár sem bólan í efnahagskerfinu olli. Íslendingar líti nú aftur til gamalla gilda og náttúruhamfarir sem þessar þjappi þeim saman, andstætt þeim hamförum sem voru af manna völdum.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert