Aukið flúormagn í öskunni

Eldfjallaaskan gerir bændum lífið leitt á margan hátt. Ekki er …
Eldfjallaaskan gerir bændum lífið leitt á margan hátt. Ekki er hægt að beita fé, kúm eða hrossum. Ómar Óskarsson

Flúormagn hefur aukist umtalsvert í kjölfar breytinga á gosösku frá eldgosinu í Eyjafjallajökli veldur þetta áhyggjum af langtímaáhrifum á heilsu dýra. Vel flestir íbúar finna þá fyrir einhverjum einkennum vegna öskufallsins, þó ekki beri mikið á bráðum einkennum.

 Kom þetta fram á fundi stjórnskipaðrar samstarfsnefndar um sóttvarnir vegna áhrifa öskufalls frá eldgosinu í Eyjafjallajökli, sem efnt var til í gær og greint er frá á vef Landlæknisembættisins.

Í fundargerðinni segir að dregið hafi úr öskumyndun og minna verði vart mjög smárra agna í gjóskunni sem berst skemur en áður. Efni í öskunni skolast hins vegar nú síður burt vegna minna aðgengis að vatni sem veldur fyrir vikið auknu magni flúors.

Könnun Þórarins Gíslasonar sérfræðings í lungnasjúkdómum og Þórs Björns Kolbeinssonar sóttvarnalækni svæðisins á heilsufari 12 íbúa á svæðinu bendir þá ekki til þess að mikið beri á bráðum einkennum vegna öskufallsins, þótt nær allir hefðu nokkur einkenni frá augum, nefi og koki. Tveir þeirra sem voru með þekktan astma voru þó með nokkuð teppta öndun sem gæti stafað af ónógri meðferð.

„Mikil þyrlun var af ryki frá ösku sem þegar hefur fallið. Gleraugu sem ætluð er að hlífa augum söfnuðu fljótt á sig ryki og því erfitt að nota í lengri tíma. Öndunargrímur vildu blotna við notkun og söfnuðu einnig á sig ryki þannig að nauðsynlegt er að skipta oft um grímur. Langtímaáhrif „nýrrar“ gosösku á heilsufar manna eru lítt þekkt. Með tilliti til smárra agna í þeirri gosösku sem þegar hefur myndast er mikilvægt að forðast að anda henni að sér,“ segir í fundargerðinni.

Heilsufar dýra hafi þá fram til þessa verið gott, en áhyggjur séu þó af vaxandi innihaldi flúors í öskunni og langtíma áhrifum hennar á heilsu dýranna. Ákveðið hefur verið að kryfja og rannsaka frekar þau dýr frá öskusvæðinu sem verða send til slátrunar. Grannt er þá fylgst með framleiðslu mjólkur, en litlar líkur eru taldar á mengun afurða. Einnig verða áhrif öskunnar á ræktun korns, grasa, gulróta, kartafla og annars sem er ræktað á öskusvæðum könnuð. Litlar líkur eru taldar á upptöku flúors í þessari ræktun.

Fram til þessa hefur neysluvatni ekki verið ógnað. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands og Matvælastofnun fylgjast náið með vatnsbólum.


 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert