Áhyggjur af stöðu Íbúðalánasjóðs

Íbúðalánasjóður
Íbúðalánasjóður

Fjármálaráðuneyti hefur áhyggjur af stöðu Íbúðalánasjóðs. Eigið fé er komið niður fyrir viðmiðunarmörk og aðgerða er þörf til að koma því í samt lag. Staða sjóðsins hefur verið kynnt í í ríkisstjórn og viðbragða að vænta innan skamms. Þetta kom fram í máli fjármálaráðherra á Alþingi í dag.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, spurði Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, út í stöðu sjóðsins og meðal annars hvort það sé rétt að ef 1% útlánatap yrði myndi eigið fé sjóðsins verða neikvætt um 3-4 milljarða króna. Steingrímur svaraði því raunar ekki beint en sagði ráðuneyti sitt hafa áhyggjur og ekki sé útilokað að grípa þurfi til aðgerða til að styrkja stöðu hans.

Steingrímur sagði sjóðinn hafa tapað talsverðu fé í ávöxtun hjá fjármálastofnunum á árunum 2007 og 2008. Ekki hafi endilega verið um að ræða áhættufjárfestingar en eftir á að hyggja vakni spurningar um hvaða fjármálastofnunum sjóðurinn hefði átt að treysta til að ávaxta fjármuni sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka