Vilja samvinnu við Ísland

Ólafur Ragnar Grímsson og Susilo Bambang Yudhoyono á Bali í …
Ólafur Ragnar Grímsson og Susilo Bambang Yudhoyono á Bali í morgun.

Forseti Indónesíu lýsti á fundi með forseta Íslands í morgun áhuga á aukinni samvinnu við Íslendinga bæði á sviði jarðhitanýtingar og sjávarútvegs. Voru forsetarnir sammála um að mikilvægt væri að jarðhiti yrði á komandi árum öflugur þáttur í aukinni nýtingu hreinnar orku á veraldarvísu. 

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, flutti í morgun ræðu við setningu heimsþings um jarðhita, sem haldið er á Bali í Indónesíu en slík þing eru á fimm ára fresti. Susilo Bambang Yudhoyono forseti Indónesíu flutti einnig ræðu við setninguna. Þingið sækja um 2500 sérfræðingar, vísindamenn, tæknifræðingar, verkfræðingar og forystumenn á sviði orkumála víða að úr veröldinni og í þeim hópi eru um 100 Íslendingar. Einnig sækja þingið hátt á annað hundrað sérfræðingar í jarðhita frá tugum þjóðlanda sem lokið hafa námi við Jarðhitaskóla
Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Fram kemur í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands, að á fundi forsetanna tveggja hafi verið rætt um hvernig íslensk tækniþekking geti gagnast við nýtingu hins gríðarmikla jarðhita sem finna má í Indónesíu. Forseti Indónesíu hafi vísað til árangurs Íslendinga á sviði jarðhitaframkvæmda, rannsókna, menntunar og þjálfunar.

Forseti Indónesíu lýsti einnig miklum áhuga á því að auka samvinnu við Íslendinga á sviði sjávarútvegs og að námsmenn frá landi hans gætu sótt í auknum mæli Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. 

Í ræðu sinni við setningu heimsþingsins lagði Ólafur Ragnar sérstaka áherslu á að næstu 5-15 ár fælu í sér gríðarleg tækifæri til að auka nýtingu jarðhita og líklegt væri að margvíslegar tækniframfarir myndu ryðja þá braut. Nefndi hann m.a. djúpborunarverkefnið sem unnið er að á Íslandi, framleiðslu smærri jarðhitavirkjana í stíl við þá sem fyrirtækið Kaldara hefur þróað, nýtingu jarðhita til að knýja loftkælingu eins og Reykjavík Geothermal vinnur að í Abu Dhabi og bindingu kolefnis á grundvelli tilrauna sem Orkuveita Reykjavíkur vinnur að í samvinnu við Háskóla Íslands og erlenda háskóla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert