Síminn stefnir Samkeppniseftirlitinu

mbl.is/Kristinn

Síminn hefur stefnt Samkeppniseftirlitinu fyrir héraðsdómi, en Síminn segir að fyrirtækið Þekking, sem eigi í samkeppni við Símann, hafi tekið þátt í húsleit Samkeppniseftirlitsins í seinustu viku.

Síminn segir að Þekking hafi afritað tölvugögn Símans og Skipta við húsleitina. Þekking hafi nýlega kært Símann til Samkeppniseftirlitsins vegna þess að fyrirtækið telji Símann hafa brotið á sér í samkeppni. Það mál sé núna til meðferðar hjá eftirlitinu, að því er segir í tilkynningu.

Þess er krafist að öllum gögnum sem starfsmenn Þekkingar tóku afrit af verði eytt. Til vara er þess krafist að starfsmenn Þekkingar taki ekki frekari þátt í meðferð gagnanna.

„Meðal gagna sem starfsmenn Þekkingar afrituðu og höfðu aðgang að voru allir tölvupóstar, samningar og samskipti við viðskiptavini, meðal annars á upplýsingatæknimarkaði þar sem Þekking á í samkeppni við Símann. Þekking hefur nýlega kært Símann til Samkeppniseftirlitsins vegna þess að fyrirtækið telur Símann hafa brotið á sér í samkeppni og er það mál núna til meðferðar hjá stofnuninni.

Samkeppniseftirlitið gerði Símanum ekki grein fyrir málinu við upphaf húsleitarinnar heldur kom þetta í ljós, þegar húsleit var um það bil að ljúka og starfsmenn Símans áttuðu sig á að starfsmenn samkeppnisaðilans væru þarna að störfum. Þekking var sagt vera undirverktaki Samkeppniseftirlitsins við húsleitina,“ segir í tilkynninu.

 „Við lítum þetta alvarlegum augum og finnst þetta afar óheppilegt svo ekki sé meira sagt. Við höfum ávallt látið Samkeppniseftirlitinu í té öll þau gögn sem óskað hefur verið eftir og það stendur ekki á Símanum að afhenda eftirlitinu öll tölvugögn. Hins vegar er ekki ásættanlegt fyrir Símann og viðskiptavini hans að  samkeppnisaðili okkar á upplýsingatæknimarkaði hafi ótakmarkaðan aðgang að trúnaðargögnum fyrirtækisins, meðal annars samningum við viðskiptavini.  Því teljum við að lágmarka verði skaðann og að Samkeppniseftirlitið tryggi að gögnin séu ekki í höndum starfsmanna Þekkingar,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert