Insolidum gert að greiða Saga Capital

Insolidum keypti stofnfjárbréf í SPRON af Saga Capital.
Insolidum keypti stofnfjárbréf í SPRON af Saga Capital. Rax / Ragnar Axelsson

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að þrotabú Insolidum, félags sem áður var í eigu Daggar Pálsdóttur, lögmanns og varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins, og Páls Ágústs Ólafssonar, sonar hennar, skuli greiða Saga Capital Fjárfestingarbanka tæpar 300 milljónir króna auk dráttarvaxta.

Hæstiréttur staðfesti einnig dóm héraðsdóms um að hafna kröfu Daggar og Páls um að rifta kaupsamningi við Sögu Capital um að kaup á stofnfjárbréfum í SPRON árið 2007.

Málaferli Sögu Capital og Insolidum spretta af veðkalli sem Saga Capital gerði hjá Insolidum 24. október 2007 eftir að stofnfjárbréf í SPRON, sem Insolidum keypti af Saga Capital og fékk lán fyrir hjá bankanum, féllu í verði. Í fyrstu hafnaði Insolidum ekki frekari tryggingum, en óskaði eftir fresti til að leysa vandann í samráði við viðskiptabanka sinn, Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Insolidum ákvað að verða ekki við veðkallinu og Saga Capital gjaldfelldi kröfuna samkvæmt lánasamningi 8. nóvember 2008. Sama dag rifti Insolidum einhliða bæði kaupunum og lánasamningnum.

Insolidum var tekið til gjaldþrotaskipta í maí 2008. Þrotabúið, Dögg og Páll höfðuðu síðar mál og kröfðust viðurkenningar á riftun þeirra 8. nóvember 2007. Var krafan einkum reist á því að stofnfjárbréfin hefðu í reynd ekki staðið undir því kaupverði sem um var samið og Saga Capital hefði verið það ljóst. Vegna tengsla Saga Capital við fyrrverandi eiganda stofnfjárhlutanna hefði hann búið yfir innherjaupplýsingum um verðmæti hlutanna og hagnýtt sér þær með ólögmætum hætti. Kröfunni um riftun lánssamningins og átta handveðssamninga var vísað frá héraðsdómi.

Í dómi Hæstaréttar segir, að hvað varðar samning um kaup á stofnfjárbréfunum hafi verið litið var til þess að eigendur Insolidum áttu frumkvæði að því að óska eftir liðsinni Saga Capital, bæði um fjármögnun fjárfestinga félagsins og kaup á stofnfjárbréfum sparisjóða. Samskipti aðila báru þá þess einnig vitni að eigendur Insolidum hefðu haft bæði mikla þekkingu á viðskiptum á verðbréfamarkaði og reynslu af viðskiptum með stofnfjárbréf sparisjóða.

Ennfremur hefði það ekki verið fyrr en Saga Capital hafði ítrekað kröfu sína um frekari tryggingar að Insolidum, Páll og Dögg töldu að þau hefðu verið blekkt í viðskiptum.

Ekki þóttu skilyrði til þess að verða við kröfu um riftun, enda enga galla að finna á hinu selda eða í söluferlinu sem metið yrði til verulegra vanefnda af hálfu Saga Capital. Því var þrotabúi Insolidum gert að greiða Saga Capital eftirstöðvar lánssamningsins, um 300 milljónir króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert