Þorkell Einarsson: Kynslóðin sem gleymdist

Frá baráttufundi á Austurvelli í dag, 1. maí
Frá baráttufundi á Austurvelli í dag, 1. maí mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Á Íslandi er kynslóð að alast upp sem fáir veita athygli. Kynslóð sem hefur gleymst í efnahagsfári, vikið fyrir lífróðri stjórnmálamanna og horfið í gosmekki. Þetta kom fram í ávarpi Þorkels Einarssonar, formanns Sambands íslenskra framhaldsskólanema, á Austurvelli í dag.

Unga fólkið fylgist með er landið fór í súginn

„Við unga fólkið, framhaldsskólanemar og háskólanemar, atvinnulausir og atvinnulitlir höfum aðeins fengið að standa hjá og fylgjast með, á meðan landið okkar fór í súginn.

Við fórum í enga útrás, við stýrðum engum bönkum, við bárum enga ábyrgð á hruni fjármálakerfis og vanhæfni stjórnmálamanna og embættismanna. En það erum við sem munum taka við þrotabúi fyrri kynslóðar og það er á okkar ábyrgð að tryggja landinu betri tíð.

Á tímum sem þessum hljótum við því að gera kröfu um að íslensk stjórnvöld, þeir sem hafa arfleitt okkur að þessum brunarústum, hlusti á okkur, beini sjónum að okkar hagsmunum og geri allt sem í þeirra valdi stendur til þess að leggja grunninn að farsælli framtíð," sagði Þorkell á fundinum í dag.

Kynslóðin sem býr við lakari hag en sú síðasta

Hann sagði í ávarpi sínu að allt stefndi í það að unga kynslóðin í dag verði fyrsta kynslóð Íslendinga síðan fyrir seinni heimsstyrjöld sem mun búa við erfiðari efnahag og lakari tækifæri en kynslóðin á undan.

„Þetta er staðreynd sem við getum ekki litið fram hjá, við verðum að spyrja íslensk yfirvöld hvað þau ætla að gera til þess að auka tækifæri okkar kynslóðar? Hvernig ætla þau að standa við bakið á unga fólkinu í landinu, hvernig mun menntun og tækifæri okkar til atvinnu verða tryggð?

Í sumar munum við sjá fram á gríðarlega hátt hlutfall framhaldsskólanema sem mun ekki fá neina vinnu. Af þeim tæplega 10% Íslendinga sem eru á atvinnuleysisskrá eru um 40% þeirra á aldrinum 16-29 ára en lítið virðist vera uppi á borðunum þegar kemur að úrræðum fyrir þennan aldurshóp. Námsmenn hafa samkvæmt lögum engan rétt á atvinnuleysisbótum og því eru skilaboðin til þessa þjóðfélagshóps einfaldlega sú að þau skuli treysta á pabba og mömmu.

Eins og allir vita hafa fjölskyldur landsins sífellt minna á milli handanna, tekjur lækka og skuldir hækka með hverjum deginum en yfirvöld ætlast til að fjölskyldurnar beri byrði atvinnulausra ungmenna. Engin vinna, ekkert nám, engar bætur. Er þetta staða sem við getum unað sátt við fyrir kynslóðina sem mun erfa þetta land?

Ef atvinnumöguleikar eru ekki uppá borðinu þá þarf að leita nýrra leiða til að halda þessum hópi ennþá inni í þjóðfélaginu. Í nágrannaþjóðum okkar eru vel þekktar þær afleiðingar sem aðgerðarleysi heillrar kynslóðar geta haft fyrir samfélagið. Við megum ekki brenna okkur á sama eldi og þær hafa þegar gert," sagði Þorkell ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert