Fréttaflutningur einhæfari eftir hrun

Geir H. Haarde og Björgvin G. Sigurðsson
Geir H. Haarde og Björgvin G. Sigurðsson mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Verulegar breytingar hafa orðið á fréttum fyrir og eftir bankahrun. Fréttaflutningur hefur orðið einhæfari og samdráttur í fréttum verið verulegur. Þannig hefur magn innlendra frétta minnkað um 11%, einna helst á kostnað þess að dagblöð eru nú færri, smærri og sjaldnar gefin út. Þetta er meðal niðurstaðna fjölmiðlarannsóknar sem Creditinfo vinnur að.

Rúmlega 10 þúsund fréttir af Icesave

Sem dæmi um einsleita umræðu hefur fréttum um efnahagsmál fjölgað um 82% frá bankahruni og ríflega 10.000 fréttir fjallað um Icesave, að því er segir í rannsókn Creditinfo.

Á einu og hálfu ári fyrir bankahrun birtust 100 fréttir um Icesave. Á ríflega einu og hálfu ári frá bankahruni hafa birst 10.130 fréttir um Icesave.

Viðskiptafréttir hafa dregist saman um 34% eftir bankahrun. Fréttum um efnahagsmál hefur fjölgað um 82% á sama tíma.

Nýleg könnun sýnir að tæplega helmingur þjóðarinnar hefur breytt venjum sínum hvað varðar það að fylgjast með fréttum nú samanborið við fyrir bankahrun. Þá sýna niðurstöður rannsóknar Creditinfo að samband er á milli þess að finna fyrir þyngri fjárhagsstöðu og því að fylgjast öðruvísi með fréttum nú en áður.

Svo virðist sem viðbrögð við áhyggjum af fjárhag eða fjárhagserfiðleikar geti endurspeglast í því að fólk fer ýmist að fylgjast meira eða minna með fréttum, að því er segir í tilkynningu.

Að meðaltali birtast nú tæplega níu þúsund innlendar fréttir á mánuði, í samanburði við um tíu þúsund innlendar fréttir á mánuði fyrir bankahrun. Samdrátturinn felst í minna magni dagblaðagreina því ljósvakafréttum hefur fjölgað þrátt fyrir styttingu ýmissa fréttatíma. Tímabundinn fréttaþáttur Skjás 1 og mbl.is er ekki talinn með.

Samanburður á meðaltalsfjölda frétta fyrir og eftir bankahrun sýnir að dagblaðaefni hefur dregist saman um 16%. Á sama tíma hefur ljósvakafréttum fjölgað um 7%. Þessi mikli samdráttur á dagblaðamarkaði hefur leitt til þess að meðaltalsfjöldi frétta á mánuði hefur dregist saman um 10% á tilteknu tímabili.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka