Engar tímasetningar um sameiningu ráðuneyta

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, á Alþingi svaraði fyrirspurnum í dag.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, á Alþingi svaraði fyrirspurnum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður VG, segist ekki geta svarað því nú hvort ráðuneyti verði sameinuð á þessu ári og þá hvenær. 

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, spurðu Steingrím um málið í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í gær, í ljósi frétta af viðræðum stjórnarflokkanna um breytingar á stjórnsýslunni.

Einar líkti viðræðunum við nýjar stjórnarmyndunarviðræður þar sem á dagskrá væri skipting ráðherraembætta. Það gerðist þrátt fyrir að annar stjórnarflokkurinn, VG, hefði mótmælt breytingum á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytum. Þá rifjaði þingmaðurinn það upp að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi og landbúnaði hefðu mótmælt breytingum af þessu tagi.

Fjármálaráðherra rifjaði það upp að í stjórnarsáttmála væri boðuð fækkun ráðuneyta. Flokksráð VG hefði hvatt til endurskoðunar, í ljósi breyttra aðstæðna. 

Sagði Steingrímur að málið væri enn í skoðun og ferli, ásamt sameiningu stofnana og innleiðingu skilvirkari stjórnsýslu.

Einar sagði að með boðuðum breytingum væri verið að veikja stjórnskipulega stöðu landbúnaðarins og kasta mikilvægum málaflokkum út úr sjávarútvegsráðuneytinu.

Sigmundur Davíð spurði hvort fjármálaráðherra gæti staðfest að búið yrði til nýtt ráðuneyti á þessu ári.

Í svari sínu rifjaði Steingrímur J. upp að ef búin yrðu til þrjú ráðuneyti úr sex myndi þar verða starfandi þrír ráðherrar í stað sex, þrír aðstoðarmenn ráðherra í stað sex, þrír bílstjórar en sex, þrír ráðuneytisstjórar í stað sex, og um það bil 20 skrifstofustjórar í stað 40.

Sagði hann fulla þörf á því að stokka upp og endurskipuleggja á þessu sviði ríkisrekstursins, eins og öðrum.  

Hann bað formann Framsóknarflokksins að sýna biðlund þar til málin kláruðust á þeim vettvangi sem þau væru nú til umræðu. Tímasetningar hefðu ekki verið ákveðnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert