Íslenskar stúlkur lausar úr haldi

Frá London.
Frá London. AP

Tvær íslenskar stúlkur um tvítugt voru látnar lausar úr fangelsi í gær eftir að dómari í Lundúnum úrskurðaði að þær hafi í sakleysi sínu látið glepjast í útlöndum og lent í slæmum félagsskap eftir komuna til Lundúna. Stúlkurnar hafa setið í fangelsi síðan í júlí í fyrra fyrir þátttöku í vopnuðu ráni. Stúlkurnar játuðu báðar þátt sinn í ráninu í dómssalnum í gær.

Á vef DailyTelegraph kemur fram að stúlkurnar hafi tælt karlmann á þrítugsaldri heim til sín en þær höfðu hitt hann á bar nokkrum dögum áður. Þegar þau komu heim til stúlknanna réðust átta vopnaðir menn á manninn og rændu af honum bæði peningum og skartgripum. Þeir hentu honum síðan inn í bíl og óku með hann á brott. Alls höfðu ræningjarnir 350 pund upp úr krafsinu, Bulgari skartgripi sem metnir eru á nokkur þúsund pund og bifreið mannsins. Var maðurinn skilinn eftir bundinn í auðri byggingu í Harrow.

Segir á vef Telegraph að stúlkurnar hafi báðar fengið átján mánaða dóm en yrðu látnar lausar þar sem þær hafa setið í varðhaldi síðan í júlí í fyrra. 

Sagði dómarinn við Inner London Crown Court, að stúlkurnar hafi látið draga sig á tálar og komist í hættuleg kynni við verstu afkima samfélagsins í Lundúnaborg. Þetta sýni hvernig spennandi, alþjóðleg og lífleg borg eins og Lundúnir eru geti á sama tíma verið hættuleg. 

Þakkaði dómarinn sendiherra Íslands í Lundúnum við aðstoðina við málið og að hann myndi sjá um að koma stúlkunum heim til Íslands á ný. Mælti hann með því að þær færu fljótt til Íslands reynslunni ríkari. Bætti dómarinn því við að hann vonaðist til þess að eldgosið í Eyjafjallajökli hætti að tefja flugsamgöngur Breta.

Fram kom við réttarhöldin að stúlkurnar komu til Lundúna í apríl í fyrra og hafi flutt ítrekað á stuttum tíma. Þær lentu fljótlega á glapstigum, búðarþjófnaði og fleiru því um líku. Kynntust þær hópi ræningja, sem enn hafa ekki náðst, og voru tálbeitur fyrir þá.

Voru þær jafnframt ásakaðar um að hafa gegnt svipuðu hlutverki þegar asískur karlmaður var rændur á sama hátt í júní í fyrra. Saksóknari ákærði þær hins vegar ekki fyrir það mál.

Hér er nánar fjallað um mál stúlknanna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka