Gefa ekkert upp

Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis.
Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis. mbl.is/Golli

Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, segist ekki getað gefið upp hvort Jón Ásgeir Jóhannesson hafi komið upplýsingum um eignir sínar til skila í dag, áður en frestur sem hann hafði rann út. Slitastjórnin muni ekki tjá sig frekar um málið.

Eignir Jóns Ásgeirs eru kyrrsettar víðsvegar um heiminn en breskur dómari staðfesti kyrrsetninguna í síðustu viku. Jón Ásgeir fékk frest til klukkan 13 í dag til að skila inn lista um eignirnar, annars ætti hann fangelsisvist að höfði sér.

„Það er dómsmál í gangi í Bretlandi. Við teljum að það sé rétti vettvangurinn fyrir það þar, þegar málið er komið á þetta stig,“ sagði Steinunn í samtali við mbl.is, þegar hún var spurð út í afstöðu slitastjórnarinnar.

Steinunn tekur fram að málið sé á byrjunarstigi. „Mér finnst ekki ólíklegt að hann taki til varna. Hann hefur í rauninni staðfest það, að hann ætli sér að gera það,“ segir hún. Tekist verði á um málið fyrir breskum dómstólum, en Jón Ásgeir hefur ráðið sér breska lögmenn.

Steinunn segir að slitastjórnin vinni nú að því að undirbúa opinn kröfuhafafund Glitni, sem fer fram á miðvikudag á Hótel Nordica. „Við erum búin að vera taka afstöðu til tæplega 2000 krafna á milli kröfuhafafunda. Við munum gera grein fyrir því á kröfuhafafundinum á miðvikudaginn hvernig sú afstaða er. Svo munum við auðvitað fara yfir með kröfuhöfum það sem við höfum verið að gera í öðrum málum, m.a. þessu,“ segir Steinunn og vísar í málið gegn Jóni Ásgeiri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka