Sleppt úr haldi

Hreiðar Már Sigurðsson.
Hreiðar Már Sigurðsson. mbl.is/Árni Sæberg

Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrum forstjóra Kaupþings, og Ingólfi Helgasyni, fyrrum forstjóra bankans á Íslandi, var sleppt úr gæsluvarðhaldi síðdegis í dag. Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði Hreiðar Má í farbann til  27. maí nk.

„Þeir eru úrskurðaðir í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna og þegar þeir eru ekki lengur fyrir hendi þá er ekki tilefni til að halda þeim lengur inni. Það var búið að klára það sem þurfti að klára,“ sagði Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.

Hreiðar Már og Ingólfur voru leiddir fyrir dómara í dag milli kl. 16 og 17 í dag. Þar var lögð fram krafa um að  þeir skyldu sæta farbanni til 27. maí. Dómarinn féllst á það.

„Farið er fram á farbann til að tryggja viðveru þeirra. Rannsóknarhagsmunir gera ekki þá kröfu að þeim sé haldið í gæsluvarðhaldi, en hins vegar er málið þannig vaxið að við viljum tryggja viðveru þeirra þangað til við erum búnir að klára ákveðinn þátt málsins,“ sagði Ólafur.

Lögmaður Hreiðars Más sagði í samtali við mbl.is að úrskurðurinn hafi verið kærður til Hæstaréttar. Ekki hefur náðst í lögmann Ingólfs.

Hreiðar Már og Ingólfur voru upphaflega úrskurðaðir í gæsluvarðhald til klukkan 16 á morgun. Hreiðar Már í 12 daga og Ingólfur í viku, báðir á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Einnig hafa þeir Steingrímur Kárason, fyrrum framkvæmdastjóri áhættustýringar Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, verið úrskurðaðir í farbann.

 Hörður Felix Harðarson, lögmaður Hreiðars Má, segir farbannsúrskurðinn vera til marks um að embætti sérstaks saksóknara vilji halda skýrslutökum áfram.

Ingólfur Helgason.
Ingólfur Helgason. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert