Áfram tryggð lyf

Lyfjatöflur. Myndin er úr safni.
Lyfjatöflur. Myndin er úr safni. mbl.is/Sverrir

Heilbrigðisráðuneytið segir að tryggt sé að enginn sjúklingur sem njóti lyfjameðferðar vegna þunglyndis verði án lyfja í kjölfar nýrrar reglugerðar um breytta greiðsluþátttöku vegna þunglyndislyfja.

Ráðuneytið segir að Frumtök, samtök frumlyfjaframleiðenda, hafi sent frá sér tilkynningu vegna reglugerðarinnar. Þar sé gengið lengra í fullyrðingum og hræðsluáróðri gagnvart viðkvæmum sjúklingahópi en hægt sé að láta ósvarað. 

Reglugerðin hafi í för með sér að frá og með 1. júní næstkomandi verði aðeins hagkvæmustu þunglyndislyfin áfram niðurgreidd. Lyfseðlar sem þegar hafi  verið gefnir út og séu fjölnota, haldi gildi sínu til 1.október 2010. Markmiðið með breytingunum sé að draga úr notkun dýrari þunglyndislyfja og minnka þannig kostnað ríkisins vegna lyfja um 200-300 milljónir á ári.

„Ekki er rétt, eins og haldið er fram í tilkynningu Frumtaka, að um það bil 14 þúsund einstaklingar verði „lyfjalausir” við gildistöku reglugerðarinnar. Allir sjúklingar haldnir þunglyndi fá eins og áður lyf við sjúkdómi sínum. Ef hagkvæmustu lyfin gagnast einhverra hluta vegna ekki viðkomandi sjúklingi sér læknir til þess að sjúklingnum verði tryggt lyfjaskírteini og þannig niðurgreiðsla vegna dýrari lyfja, sem sjúklingurinn þarf á að halda.

Hvergi er notkun og kostnaður vegna þunglyndislyfja meiri en á Íslandi. Þá er notkun dýrari þunglyndislyfja hlutfallslega meiri hér á landi en á Norðurlöndunum. Sem dæmi er notkun á algengasta þunglyndislyfinu, Cipralex, 24% af heildarnotkun þunglyndislyfja á Íslandi en aðeins 7% í Svíþjóð.

Notkun þunglyndislyfsins, Oropram, sem er mun ódýrara, er 9% af heildarnotkun þunglyndislyfja hér á landi en 32% í Svíþjóð.

Umræddri reglugerð er ætlað að spara verulegar upphæðir fyrir þjóðarbúið um leið og öryggi sjúklinga er tryggt. Sama leið hefur verið farin í öðrum lyfjaflokkum og reynst vel. Má það ekki síst þakka skilningi og góðu samstarfi við lækna og samtök sjúklinga,“ segir á vef heilbrigðisráðuneytisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert