Fréttaskýring: Nemendur ljúki 60% fulls náms til að fá lán

mbl.is/Kristinn

Hugmyndir um breyttar útlánareglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) mælast misjafnlega fyrir. Stúdentar segja breytinguna, sem myndi þýða að nemendur þurfa að ljúka fleiri einingum á ári til að fá námslán en nú er krafist, koma illa við þá sem fara hægar yfir. Á móti benda stjórnendur sjóðsins á að fyrir þá sem stunda fullt nám, sem sé sá hópur sem sjóðurinn eigi fyrst og fremst að styðja við, er ekki í reynd um skerðingu að ræða.

Samkvæmt núverandi úthlutunarreglum þarf nemandi að ljúka 20 ECTS einingum á skólaári, sem er þriðjungur af fullu námi, til að fá námslán. Ljúki hann til að mynda 10 einingum hvora önnina fær hann námslán fyrir þeim einingum að vori. Ef nemandinn hins vegar lýkur t.d. 20 einingum á haustönn – þ.e. 67% af fullri önn – er lán fyrir þeim einingum greitt út strax að önninni lokinni.

Líst illa á hugmyndina

Innan stjórnar LÍN hefur undanfarið verið rætt um að breyta reglunum á þá vegu, að nemandi þurfi að ljúka 18 einingum á önn – eða 60% af fullu námi – til að fá námslán. Gert er ráð fyrir að ekki verði hægt að flytja einingar á milli anna, eins og hægt er samkvæmt núgildandi reglum. Að sögn Auðar Lilju Erlingsdóttur, varaformanns stjórnar LÍN, er breytingin hugsuð til að mæta hagræðingarkröfu á sjóðinn.

Gabriella Unnur Kristjánsdóttir, hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi stúdentaráðs Háskóla Íslands, gagnrýnir tillöguna sem hún segir koma harðast niður á þeim sem veikast standa. Bendir hún á að margir eigi erfitt með að stunda fullt nám, t.d. þeir sem eru með ung börn á framfæri.

„Einnig er mikilvægt að hafa í huga að ekki er um að ræða styrk, heldur lán fyrir framfærslu sem nemendur greiða til baka með vöxtum. Okkur hjá stúdentaráði finnst mikilvægt að nemendur fái svigrúm til að haga námi sínu eins og þeim hentar,“ segir Gabríella.

Úthlutunarreglurnar voru rýmkaðar talsvert árið 2008 þegar nýtt einingakerfi var tekið í notkun við háskólana. Fram að þeim tíma þurfti nemandi að ljúka 75% af fullu námi á önn til að fá námslán. Þó var hægt að fá greitt út lán fyrir báðum önnum að vori ef nemandi til að mynda lauk 70% námi á haustönn en 80% á vorönn.

Engin skerðing fyrir flesta

Guðrún Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri LÍN, bendir á að fyrir þá nemendur sem eru í fullu námi felist alls engin skerðing í hinum nýju hugmyndum. Flestir byrji í námi að hausti, og þurfi að ljúka 20 einingum þá önnina til að fá námslán greitt út að henni lokinni, en fá ekki lán aftur fyrr en þeir hafa lokið 20 einingum til viðbótar.

„Sem fyrir flesta þýðir að þeir þurfa að skila 20 einingum á önn til að fá lán. Því er í raun verið að fara úr kröfum um að nemendur ljúki 67% af fullri önn til að fá námslán í kröfur um að þeir ljúki 60%.

Einhverjir hafa auðvitað verið að taka einn og einn kúrs og fyrir þá hefði breytingin skerðingu í för með sér. En við lítum svo á að þegar þrengir að skipti mestu máli að styðja við þá námsmenn sem eru í fullu námi,“ segir Guðrún.

Þá munu sömu undanþáguheimildir gilda áfram, segir hún, en þeir sem t.d. eru lesblindir, veikjast eða verða barnshafandi fá undanþágu frá þeim fjölda eininga sem ljúka þarf til að fá námslán.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert