Síldveiðar að hefjast hjá HB Granda

Stefnt er að því að Lundey NS fari til síldveiða eftir hvítasunnuhelgina eða um miðja næstu viku og í framhaldinu munu Faxi RE og Ingunn AK verða send til veiða að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda.  Þetta kemur fram í frétt á vef HB Granda.

Að sögn Vilhjálms hefur lítið heyrst af gangi síldveiða en a.m.k. eitt íslenskt skip hefur reynt fyrir sér að undanförnu. Í fyrra fóru skip HB Granda til síldveiða um 24. maí þannig vertíðarbyrjunin nú verður á svipuðu róli ef farið verður til veiða eftir hvítasunnuna.

Hjá fiskiðjuveri HB Granda á Vopnafirði hefur verið unnið að undirbúningi síldarvertíðarinnar undanfarnar vikur. Búið er að kaupa tvær nýjar, sjálfvirkar flökunarvélar af Baadergerð auk nýrra færibanda og annars búnaðar til innmötunar á síldarvélarnar. Magnús Róbertsson, vinnslustjóri á Vopnafirði, segir að verið sé að leggja lokahönd á breytingar á vinnslusalnum en þar eru nú sjö flökunarvélar og þar af þrjár sjálfvirkar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert