Finna þarf fleira en niðurskurð

LIlja Mósesdóttir alþingismaður.
LIlja Mósesdóttir alþingismaður. Kristinn Ingvarsson

Lilja Mósesdóttir, alþingismaður VG, hefur sagt sig úr ríkisfjármálahópi stjórnarflokkanna sem var falið að gera tillögur að frekari niðurskurði ríkisútgjalda en þegar er kominn til framkvæmda. Lilju fannst skorta á að leitað væri fleiri leiða en niðurskurðar, því hann muni bara herða kreppuna.

Lilja sagði að áður en hún fór í ríkisfjármálahópinn hafi hún lýst þeirri skoðun sinni að taka ætti upp tillögur sjálfstæðismanna um að flýta skattlagningu séreignasparnaðar. Hún hafi einnig hvatt til að reiknað yrði út hverju slík skattlagning myndi skila fyrir ríkissjóð og hvað hún myndi þýða fyrir lífeyrissjóðina.

Hún bendir á að skattlagning á séreignasparnað geri meira en að mæta aðlögunarþörfinni að áætlun ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) sem er hátt í 50 milljarðar árið 2011. Það sem umfram er færi þá í að minnka halla ríkissjóðs meira en AGS mælir með. Það myndi draga úr vaxtakostnaði ríkissjóðs.

Lilja segir talið að skattlagning á séreignasparnað geti skilað 80-120 milljörðum. Þetta þurfi að reikna út. Upplýsingar skortir um hve mikið er búið að taka út af séreignasparnaði og og hvað er eftir í sjóðunum.

Lilja kveðst byggja tölur sína á þeim sem sjálfstæðismenn voru með í sinni efnahagstillögu. Hún sagði að Ögmundur Jónasson alþingismaður og fleiri innan þingflokks VG hafi viljað fá þetta reiknað út og þýðingu þess fyrir lífeyrissjóðina.

Það var þingflokkur VG sem skipaði Lilju í ríkisfjármálahópinn. „Ég varð fyrir vonbrigðum þegar ég fór inn í ríkisfjármálahópinn og áttaði mig á því að hlutverk hans var fyrst og fremst að koma með tillögur að niðurskurði. Það átti ekki að skoða margar leiðir að því að ná þessum hátt í 50 milljörðum sem er aðlögunarþörf ársins 2011,“ sagði Lilja.




Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert