Eftirsjá af Steinunni Valdísi

Steinunn Valdís Óskarsdóttir ætlar að segja af sér þingmennsku eftir …
Steinunn Valdís Óskarsdóttir ætlar að segja af sér þingmennsku eftir helgi. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér finnst ákveðin eftirsjá af Steinunni Valdísi í pólitíkinni, en ég skil að hún er að bregðast við mjög harðri gagnrýni sem hefur snúið að henni og öðrum frambjóðendum sem þáðu styrki á þeim tíma sem menn voru í mikilli prófkjörsbaráttu og dýrar auglýsingaherferðir þóttu sjálfsagðar,“ segir Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, tilkynnti síðdegis að hún ætli að segja af sér þingmennsku eftir helgi.

Spurð hvort hún telji að afsögn Steinunnar Valdísar muni hafa jákvæð áhrif á fylgi Samfylkingarinnar í komandi sveitarstjórnarkosningum segist Stefanía hafa þó nokkrar efasemdir um það, enda komi afsögnin mjög seint fram.

Stefanía segist hins vegar ekki í neinum vafa um að afsögn Steinunnar Valdísar muni hafa áhrif þegar til lengri tíma líti. „Steinunn Valdís er að stíga stórt skref og hækka þröskuldinn. Ég hef samúð með henni og þeim stjórnmálamönnum sem hafa lent í þessari orrahríð,“ segir Stefanía og tekur fram að hún sjái ekki betur en erfitt muni reynast fyrri þá þingmenn sem farið hafa í leyfi frá þingstörfum að snúa aftur í ljósi þessar pressu sem nú hafi verið sett.

Spurð hvort hún telji að með afsögninni muni þrýstingurinn aukast á aðra stjórnmálamenn sem líkt og Steinunn Valdís þáðu stóra prófkjörsstyrki segir Stefanía það ekki ólíklegt. Bendir hún á að margir sem sóttust eftir háum sætum í prófkjörum árin 2006 og 2007 hafi tekið við háum styrkjum og því geti verið erfitt að draga línuna um hvað þyki of hár styrkur og hvað geti talist innan eðlilegra marka.

Nefnir hún sem dæmi að Hjálmar Sveinsson, frambjóðandi Samfylkingarinnar, hafi í fjölmiðlum látið hafa eftir sér að sér þyki Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, hafa þegið of háa styrki en þó sé mikill munur á þeim 5-6 milljónum sem Dagur þáði og þeim tæpu 13 milljónum sem Steinunn Valdís þáði.

Spurð hvort hún telji að afsögn Steinunnar Valdísar muni setja pressu á t.d. Guðlaug Þór Þórðarson, þingmann Sjálfstæðisflokks, sem líkt og Steinunn Valdís þáði háa styrki fyrir sína prófkjörsbaráttu segir Stefanía það ekki sjálfgefið. Bendir hún á að stjórnmálamenn eigi misgott með að bíða af sér gagnrýni, en hins vegar sé ekki ólíklegt að erfitt geti verið fyrir þá þingmenn sem þáðu háa prófkjörsstyrki að ná endurkjöri í næstu þingkosningum.
 
„Ég held að stjórnmálamenn og við almennt tapað sakleysinu eftir hruninu. Ég held að íslensk stjórnmálamenning sé að færast nær því sem við þekkjum í nágrannalöndum okkar þar sem menn hafa lært af reynslunni hversu mikilvægt sé að hafa skýrar verklagsreglur t.d. þegar kemur að því að gefa upp hverjir styrki stjórnmálamenn með fjárframlögum.“


Stefanía Óskarsdóttir
Stefanía Óskarsdóttir mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka