Vilja að yfirmaður beri starfsheitið forstjóri

Hjúkrunarfræðingar við störf á Landspítala.
Hjúkrunarfræðingar við störf á Landspítala. mbl.is/Árni Sæberg

Aðalfundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga telur mikilvægt að yfirmaður sameinaðrar stofnunar Lýðheilsustöðvar og Landlæknisembættis beri starfsheitið forstjóri eða forstöðumaður og hafi menntun á heilbrigðissviði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ályktun aðalfundarins.

„Aðalfundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga haldinn 27. maí 2010 leggur áherslu á að við enduruppbyggingu íslensks samfélags beri að huga að heilsu og vellíðan ásamt góðu heilbrigðiskerfi. Stjórnvöld eru í lykilaðstöðu til að móta heilbrigðiskerfið að þörfum þessa nýja samfélags. Aðalfundur Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga skorar á stjórnvöld að takast á við það erfiða verkefni að endurskoða og móta heilbrigðiskerfið með þarfir skjólstæðinga að leiðarljósi. Taka þarf erfiðar ákvarðanir er varða meðal annars forgangsröðun verkefna og verkaskiptingu milli stofnana.

Aðalfundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga haldinn 27. maí 2010 leggur áherslu á ábyrgð hvers einstaklings á eigin heilsu. Hreint loft, ómengað vatn, gott húsnæði og menntun leggur grunninn að góðri heilsu þjóðarinnar. Ábyrgð einstaklinga liggur í því að huga að heilsutengdum þáttum í sínu daglega lífi eins og næringu, hreyfingu, hvíld og mannrækt.

Aðalfundur Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga vill sérstaklega hvetja landsmenn til að huga vel að heilsu og velferð sinni á þessum umrótatímum. Sterk fjölskyldu- og vinabönd munu skila þjóðinni sterkum einstaklingum sem koma til með að taka við því vandasama verkefni að leiða áframhaldandi þróun íslensks samfélags. Sá tími sem varið er í samverustundir er dýrmætur og mun skila sér margfalt til baka.

Aðalfundur Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga haldinn 27. maí 2010 skorar á stjórnvöld að finna sameinaðri stofnun Lýðheilsustöðvar og Landlæknisembættis nafn sem endurspegli verkefni hennar, lýsi hlutverki hennar og er hlutlaust gagnvart starfsstéttunum þrjátíu og tveimur sem stofnunin sér um leyfisveitingar til og hefur eftirlit með. Tillaga aðalfundar Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga til stjórnvalda er að stofnunin fái nafnið Heilbrigðisstofa.

Þá telur aðalfundur Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga mikilvægt að yfirmaður stofnunarinnar beri starfsheitið forstjóri eða forstöðumaður og hafi menntun á heilbrigðissviði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert